131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[10:24]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið við þessa atkvæðagreiðslu mun Samfylkingin flytja breytingartillögur þar sem lagt er til að gera enn betur við aldraða þegar kemur að eignarskattinum. Við ætlum hins vegar ekki að leggja sérstaka lykkju á leið okkar til að aflétta eignarskatti á fyrirtækjum í landinu og stóreignafólki.

Það er hins vegar eftirtektarvert, herra forseti, hjá stjórnarliðum sem mæla á þann veg að hér sé um tímamót að ræða hvað varðar skattlagningu og efnahagspólitík í landinu en samt er það ólundin sem ræður ríkjum, samt er það pirringurinn og brjálæðið og leiðindin út í stjórnarandstöðuna. Ég bið, herra forseti, þess lengstra orða að stjórnarliðar nái gleði sinni hér og geti klárað þessa atkvæðagreiðslu með eins og hálft bros á vör þótt ekki væri meira.

Nú hlæja þeir og það er kominn tími til. Ég greiði ekki atkvæði.