131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[10:36]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það eru fyrst og fremst gaddfreðnir sanntrúaðir hægri menn, nýfrjálshyggjumenn, sem hafa ástæðu til að gleðjast í dag. Hér er verið að leiða í lög últra hægri stefnu í skattamálum þar sem hátekju- og stóreignafólk fær mest. Þátttaka Framsóknarflokksins í þessum aðgerðum afhjúpar þann flokk sem hægri flokk og löngu eru nú liðnir þeir dagar að framsóknarmenn töldu sér til tekna að vera vinstra megin við miðju, að allt væri betra en íhaldið. Þeir eru svo löngu liðnir.

Það var sagt um Alþýðuflokkinn gamla að hann hefði verið nokkuð illa á sig kominn eftir þjónustuna við íhaldið í viðreisnarstjórninni. En Framsókn er í miklu hörmulegra ástandi eftir flórmoksturinn og baksið við að framkvæma stefnu íhaldsins á öllum sviðum og umbylta þessu þjóðfélagi í átt til hægri hyggju, (Gripið fram í.) einstaklingshyggju og nýfrjálshyggju. Og hæstv. landbúnaðarráðherra ætti sérstaklega að kunna að skammast sín (Gripið fram í.) fyrir að vera að glenna sig þetta í þessari umræðu. Ég greiði ekki atkvæði.