131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[14:37]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst taka það fram að þetta stjórnskipulag er í samræmi við skipulag Fjármálaeftirlitsins og það þykir hafa reynst mjög vel þar.

Eins og kom fram hjá hv. þingmanni mun ráðherra skipa þriggja manna stjórn og stjórnin mun ráða forstjóra. Það verður sem sagt ekki eins og er í dag að forstjóri heyri beint undir ráðherra. Það er ekki samband þarna á milli sem skiptir miklu máli. Lagt er til að það sé hlutverk stjórnar Samkeppniseftirlitsins að móta áherslur í starfi stofnunarinnar og fylgjast með starfsemi og rekstri hennar.

Einnig er lagt til að áður en Samkeppniseftirlitið tekur meiri háttar ákvarðanir skuli þær bornar undir stjórn. Með því er ætlunin að tryggja enn frekar að meðalhófs sé gætt í öllum aðgerðum stofnunarinnar. Gert er ráð fyrir að stjórn Samkeppniseftirlitsins móti á svipaðan hátt eigin reglur um störf sín og samskipti við stofnunina, forstjóra og starfsmenn hennar, og er hvað varðar Fjármálaeftirlitið og skilgreini þannig sjálf nánar hvers konar ákvarðanir skuli bera undir stjórn. Ekki er kveðið nákvæmlega á um það í lagatextanum.