131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[17:47]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel mikilvægt að það komi skýrt fram að með frumvarpinu er ákvörðunarvald í einstökum málum fært til forstjóra stofnunarinnar, Samkeppniseftirlitsins. Í dag liggur ákvörðunarvaldið hjá samkeppnisráði, sem er eins og ég gat um áður ráðherraskipað. Ef menn hafa áhyggjur af því að ráðherrar í landinu séu með puttana í því sem væntanleg stjórn Samkeppniseftirlitsins kemur til með að hafa með höndum þá ættu áhyggjur manna af pólitískum áhrifum á núverandi samkeppnisráð að vera jafnvel enn meiri. Samkeppnisráð er ákvörðunaraðili í gildandi lögum en samkvæmt frumvarpinu verður forstjórinn ákvörðunaraðili þannig að ákvörðunarvaldið fjarlægist hið pólitíska vald fremur en hitt.