131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

591. mál
[19:13]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Þá er komið fram frumvarp til laga um Neytendastofu og talsmanna neytenda sem hæstv. viðskiptaráðherra birti drög að á heimasíðu ráðuneytisins nú í haust er leið.

Liðin eru sex ár síðan hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra stofnaði starfshóp sem skilaði áliti sumarið 1999 um hvernig ætti að forgangsraða og koma fyrir neytendavernd og neytendarétti hér á landi. Það verður því miður að segjast, herra forseti, að ekki hefur margt gerst í þeim efnum á þeim árum sem síðan hafa liðið. Hér er þó loksins komið fram frumvarp um Neytendastofu og talsmann neytenda.

Við fyrstu sýn, herra forseti, vill maður að sjálfsögðu gleðjast yfir því að ráðuneyti viðskiptamála skuli hafa lagt þetta frumvarp fram og að hér skuli eiga að efla neytendavernd eins og hæstv. ráðherra tók fram í framsögu sinni. Svo þegar betur er að gætt vakna margar spurningar við lestur þessa frumvarps. Þeim mun kannski ekki öllum verða svarað hér við 1. umr. Væntanlega verður farið mjög vel yfir þessi mál í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og málin tekin til rækilegrar umræðu við 2. umr. á hinu háa Alþingi. En það verður þó við þetta tækifæri að spyrja nokkurra spurninga og vænta þess að hæstv. ráðherra eigi við þeim svör.

Fyrir það fyrsta er meginhugmynd þessa frumvarps að taka það sem nú heitir Löggildingarstofa og gera að Neytendastofu, færa þau verkefni Samkeppnisstofnunar sem hingað til hafa verið undir einhvers konar neytendahatti undir nýja Neytendastofu og bræða saman við hana núverandi verkefni Löggildingarstofu.

Ég nem fyrst staðar við þetta atriði, herra forseti, af því ég hef ekki fulla sannfæringu fyrir því að mælifræðin og rafmagnsöryggismálin eigi endilega heima undir Neytendastofu eins og hér er lagt til. Það varðar kannski helst það, herra forseti, hvernig þeim málum verður háttað innan nýrrar Neytendastofu, hvað hefur forgang og í hvað þeir fjármunir fara sem Neytendastofa mun væntanlega fá á fjárlögum.

Hitt nýmælið hér er að skipa talsmann neytenda. Ég geri ekki ágreining við hæstv. ráðherra um heiti talsmanns eða umboðsmanns eins og sumir vilja kalla það embætti. Sjálf flutti ég þingsályktunartillögu fyrr í vetur ásamt öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar um að setja á stofn embætti talsmanns neytenda, þó með nokkuð öðrum hætti en gert er ráð fyrir í frumvarpi ráðherra.

Það verður ekki séð, hæstv. forseti, að talsmaður þessi hafi það sjálfstæði, bæði fjárhagslegt og rekstrarlegt, sem talsmaður neytendamála verður að hafa eigi hann að geta sýnt það frumkvæði og verið sú rödd til varnar neytendum og talsmaður þeirra, eins og liggur í orðanna hljóðan, eins og við gerum væntanlega ráð fyrir. Það verður ekki betur séð en að talsmaður neytenda verði settur undir forstjóra Neytendastofu. Í frumvarpinu og greinargerðinni stendur að Neytendastofa vinni þau verkefni sem vinna þurfi fyrir talsmanninn. Það þýðir einfaldlega að talsmaðurinn hefur engin mannaforráð. Hann þarf að leita til forstjóra Neytendastofu til að fara í tiltekin verkefni. Það er augljóst að það getur hamlað starfi talsmannsins ef forstjórinn hefur t.d. mannskap sinn í öðrum málum eða af öðrum ástæðum og hann virðist heldur ekki eiga að hafa sjálfstæðan fjárhag.

Í nágrannalöndum okkar er það talið grundvallaratriði til þess að tryggja sjálfstæði talsmannsins að hann hafi þennan sjálfstæða fjárhag og sé í raun og veru einn á báti í kerfinu, ef þannig má að orði komast, þó svo þannig að hann hafi mannaforráð og þá stöðu í kerfinu að til hans sé litið og að embættið hafi úr því fé að spila sem þörf krefur og þá stöðu í kerfinu sem þörf krefur.

Ég geri athugasemdir við það strax við 1. umr. að mér sýnist að hér hafi ráðuneyti viðskiptamála ekki tekist að búa þannig um hnútana að talsmaður neytenda verði sá sjálfstæði talsmaður neytenda sem hann þarf að vera. Það er eindregin skoðun okkar í Samfylkingunni að vitaskuld sé full þörf á þessu embætti en að sama skapi sé full þörf á því að það hafi það sjálfstæði til að bera sem gerir það að öflugum málsvara neytenda. Ekki veitir af, hæstv. forseti, ekki veitir af.

Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpstextanum frá því sem kunngert var á heimasíðu ráðuneytisins 30. september 2004. Það er ráð að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra hvað veldur breytingunum. Sumt af þessu er kannski smámál, annað veigameira. Það er orðalagsbreyting í 6. gr. sem ég spyr um. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hlutverk talsmanns neytenda felst m.a. í því að:

a. taka við erindum neytenda.“

Í drögunum stóð „að taka við kvörtunum“. Ég vil ekki fara í orðhengilshátt en ég vil vita hvers vegna þessu var breytt.

Hvað varðar c-lið 6. gr. er hins vegar gerð breyting sem heldur áfram í frumvarpinu, það er talað um álitsgerðir. Í 10. gr. frumvarpsins er talað um „álit talsmanns neytenda“ þar sem áður stóð „ákvarðanir“. Því verður að spyrja, hæstv. forseti: Hvaða gildi eiga álitin að hafa? Hver er munurinn á því, að áliti hæstv. ráðherra, að gefnar séu út „álitsgerðir“ en ekki „ákvarðanir“ eins og við þekkjum t.d. frá Samkeppnisstofnun? Hvert er þá gildi álitsgerðarinnar? Er hægt eins og við þekkjum úr öðrum stofnunum, t.d. frá Jafnréttisstofu og öðrum slíkum, að gefa út álit, jafnvel álit kærunefndar eins og þekkist í jafnréttismálum sem hefur visst gildi en þó ekki þannig að það sé hægt að beita neinum viðurlögum þannig að fólk og fyrirtæki fari eftir því?

Síðan eru viðbætur í 8. gr. Þar segir, með leyfi forseta:

„Talsmaður neytenda getur ekki krafist upplýsinga er varða öryggi ríkisins eða utanríkismál sem leynt skulu fara nema með leyfi ráðherra þess sem í hlut á.“

Þetta tengist líka setningu í 9. gr., með leyfi forseta:

„Talsmanni neytenda er óheimilt að skýra frá þeim atriðum sem hann verður áskynja um í starfi sínu og leynt eiga að fara.“

Í sjálfu sér mjög skiljanleg setning en það er þetta með öryggi ríkisins og utanríkismálin, hvernig nákvæmlega heldur hæstv. viðskiptaráðherra að reyna muni á þessa grein? Er þetta öryggisventill eða hvað veldur því að þessu er bætt inn í frumvarpið?

Ég er þeirrar skoðunar, hæstv. forseti, að það sé mikil ástæða til þess og brýn að efla starf að neytendamálum hér á landi, að auka vitund almennings um rétt sinn sem neytenda, auka neytendavernd og ekki síst að auka fræðsluna. Hún getur að sjálfsögðu farið fram með ýmsum hætti, í samstarfi við aðrar stofnanir, í samstarfi við skóla landsins, bæði grunnskóla og framhaldsskóla, með auglýsingum og öðru því sem nær til almennings.

Í athugasemdum við lagafrumvarp þetta er talað um að helsta markmið þess að setja á fót Neytendastofu sé að efla starf að neytendamálum. Þegar hins vegar er flett alveg til enda má lesa í athugasemdum fjármálaráðuneytisins um kostnaðarauka ríkissjóðs vegna þessara breytinga, með því að færa sex starfsmenn frá Samkeppnisstofnun til núverandi Löggildingarstofu, nýta mannaflann þar og búa til Neytendastofu. Hér segir, með leyfi forseta:

„Verði frumvarpið að lögum mun kostnaður ríkissjóðs aukast um 16,5 millj. kr., þar af eru 14,5 millj. kr. varanlegur rekstrarkostnaður …“ — Það er sem sagt hinn aukni varanlegi rekstrarkostnaður við þessar breytingar. Og 2 millj. kr. vegna flutnings á starfseminni sem eðlilega kostar ákveðna upphæð.

Það er sem sagt gert ráð fyrir því að þessi nýja stofnun, þetta nýja batterí, krefjist aukins rekstrarfjár. Þá má í sjálfu sér búast við að eðlilegt sé að gera ráð fyrir því. Hins vegar sér þess hvergi stað í þessu frumvarpi að það eigi að auka fjárframlög og fjárveitingar til neytendamálanna almennt. Ég sé a.m.k. ekki í hendi mér, herra forseti, að aukinn rekstrarkostnaður fari beinlínis t.d. í það að auka fræðslu, búa til og gefa út auglýsingaefni, auglýsa í sjónvarpi eða annað slíkt sem nær með góðu móti til alls almennings og er náttúrlega eitthvað sem Neytendastofa, og ekki síst talsmaður neytenda, ætti að geta gert. Til þess þarf auðvitað fjárveitingar. Það kostar peninga eins og flest annað forvarnastarf í samfélaginu. Ég lít svo á að talsmaður neytenda sé ekki aðeins réttindagæslumaður, heldur hafi einnig með höndum ákveðnar forvarnir, ef þannig má að orði komast, sem ekki síst felst í því að fræða almenning um réttindi sín og auka réttarvitund hins almenna neytanda hér á landi.

Margt bendir til þess að sú vitund mætti vera miklu sterkari, herra forseti, og að hinn almenni íslenski neytandi mætti vera miklu meðvitaðri um bæði rétt sinn og stöðu á markaði og gagnvart öðrum aðilum á hinum opna, frjálsa markaði.

Því vil ég ítreka spurningar mínar um það hvort það sé rétt skilið eftir lestur þessa frumvarps að talsmaður neytenda heyri í raun undir forstjóra Neytendastofu. Heyrir hann undir forstjóra Neytendastofu og á í raun og veru, eins og hér segir, allt undir því að forstjóri Neytendastofu láti hann hafa þann mannskap sem þörf krefur fyrir hvert verkefni og í hvert skipti? Hvernig á þá að tryggja það, hæstv. forseti, að talsmaður neytenda verði t.d. ekki út undan í þessari stofu? Hvernig á að tryggja það að talsmaður neytenda sem á að hafa visst sjálfdæmi um verkefnaval sitt geti í raun farið í þau verkefni ef hann hefur ekki sjálfstæðan fjárhag?

Í athugasemdum við frumvarpið er gerð grein fyrir því hver sé aðalmunurinn á þeim hugmyndum sem hér eru lagðar fram og því hvernig útfærslan hefur verið í nágrannalöndum okkar um embætti umboðsmanns eða talsmanns neytenda. Í nágrannalöndum okkar heita þeir umboðsmenn. Hér segir, með leyfi forseta:

„Felst munurinn aðallega í því að talsmanni neytenda er hvorki ætlað að vinna að stefnumótun á sviði neytendamála eins og títt er með umboðsmenn né er lagt til að talsmaður neytenda vinni að því að gerðar verði rannsóknir á sviði neytendamála. Lagt er til að þessi verkefni verði falin Neytendastofu.“

Með þessari tilhögun er verið að skerða mjög athafnafrelsi talsmannsins. Hann fær ekki það svigrúm til rannsókna, athafna og aðgerða sem starfsbræður hans og -systur á Norðurlöndunum hafa. Það er auðvitað ástæða fyrir því að þessu er svona fyrir komið í nágrannalöndum okkar. Það er vegna þess að fólk hefur séð gildi þess að umboðsmaður eða talsmaður neytenda sé sjálfstæður embættismaður, talsmaður fólksins, og hafi einnig með höndum vegna þeirrar reynslu sem hann aflar sér og vegna starfa sinna stefnumótun í þessum málum og hafi þá líka, svo að ég segi það enn og aftur, það fjármagn og þau mannaforráð sem til þarf.

Hér þarf ekki að vera um háar upphæðir að tefla, þó nokkrar en ekki háar ef borið er saman við þann árangur sem ná má með starfi sem þessu eins og við þekkjum dæmi um í kringum okkur. Ég get ekki séð að hæstv. viðskiptaráðherra tryggi sjálfstæði talsmanns neytenda með þessu frumvarpi. Því er þó haldið fram í frumvarpstextanum og í athugasemdunum að talsmaður neytenda sé sjálfstæður þrátt fyrir allt en þó er hann algjörlega kominn upp á náð og miskunn, vil ég segja, forstjóra Neytendastofu og það hvernig fjárhagsáætlun er gerð fyrir Neytendastofu ár hvert.

Þetta þarf að athuga mjög vel. Það þarf að fara vandlega yfir þetta í efnahags- og viðskiptanefnd og skoða frá öllum hliðum hvort megi ekki bæta þennan frumvarpstexta og bæta þetta frumvarp, gera þær breytingar á því sem skila okkur sjálfstæðum talsmanni neytenda sem getur með sanni uppfyllt hlutverk sitt og skyldur gagnvart neytendum.

Að sama skapi sé ég ekki að hægt sé að setja á fót Neytendastofu og þetta nýja embætti án þess að auka fjárframlög til þessa málaflokks, þá ekki bara í rekstrarkostnað, hæstv. forseti, heldur að auka framlögin sem fara beinlínis í það að upplýsa almenning um réttindi sín, að vekja athygli á því sem aflaga fer á markaði, að hafa þá stöðu í samfélaginu og á hinum frjálsa markaði að fullt tillit sé tekið til þess sem talsmaður neytenda hefur fram að færa, það sé ekki bara hinn almenni neytandi sem hlusti á talsmann neytenda, heldur líka fyrirtækin í landinu. Þau eru náttúrlega hinn aðilinn á hinum stóra, frjálsa markaði. Það verður að búa þannig um hnútana að þetta nýja embætti fari þannig af stað og hafi það í höndum að eitthvað geti orðið úr því.

Annars er ég mjög hrædd um að talsmaður neytenda verði — mér þykir leitt að segja það — eins og hver annar skrifstofumaður á Neytendastofu sem hafi hvorki þá stöðu né það umboð sem slíkur embættismaður á að hafa og þarf að hafa. Ég vil trúa því að flestir hv. þingmenn hafi metnað til að setja á fót slíkt embætti.

Þess vegna hef ég líka fulla trú á því að í umfjöllun efnahags- og viðskiptanefndar verði farið mjög vandlega ofan í saumana á þessu máli og þær breytingar gerðar sem bæta úr og efla sjálfstæði talsmannsins og að auki að við fjárlagagerð næsta árs verði það metnaðarmál hæstv. viðskiptaráðherra að auka framlög til neytendamála þannig að efla megi neytendavernd og vitund almennings um réttindi sín og fara hér fram með fræðslu sem er okkur öllum til sóma.