131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Ráðning fréttastjóra Ríkisútvarpsins.

[10:49]

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er ekki að undra málflutning hv. þm. Marðar Árnasonar sem hér talaði á undan. Þessi málflutningur stjórnarandstöðunnar sem snýr að því að rakka niður hinn nýja fréttastjóra RÚV er alveg með ólíkindum. Ég ætla ekki að fara út í nákvæm málsatriði vegna þess að þau verða rædd hér eftir helgi, enda hafði hv. þm. Ögmundur Jónasson beðið um utandagskrárumræðu um málefni RÚV, fyrstur manna, og fer hún vonandi fram sem fyrst.

Nokkrir hv. þingmenn hafa rætt um flokkspólitíska hagsmuni og er sú umræða með ólíkindum. Hinn nýráðni fréttastjóri RÚV, sem ég hafði ekki heyrt um fyrr en í gær, er sagður tengjast Framsóknarflokknum. Ég lýsi furðu minni á þessum málflutningi. Ég ræddi við framkvæmdastjóra Framsóknarflokksins í morgun. Þessi maður hefur aldrei verið skráður í flokkinn. Ég hef starfað í flokknum frá árinu 1992 og hef aldrei séð þennan aðila, hvorki á fundum né í starfi flokksins. Málflutningur stjórnarandstöðunnar er órökstuddur varðandi tengsl fréttastjórans við Framsóknarflokkinn. Það er alveg með ólíkindum að hanga í einhverjum svona atriðum og reyna ekki að leita sér upplýsinga um málið.

Við munum vonandi taka málefnalega umræðu um RÚV eftir helgi og ég ítreka að ég vona að hún verði málefnalegri en þetta, að vilja rakka niður einstakan aðila, og menn reyni að leita að rökum fyrir þessum málflutningi.