131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

786. mál
[21:43]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að í ályktun búnaðarþings felist samþykki þingsins fyrir því að sjóðurinn sé seldur með þeim hætti sem hér er lagt til og hvort haft hafi verið nægilegt samráð við Bændasamtökin til að mega ganga fram með þeim hætti sem lagt er til í þessu frumvarpi.

Í öðru lagi langar mig til þess að spyrja hæstv. ráðherra út í það sem fram kemur í bréfi verkefnisstjórnarinnar. Hún leggur nánast þennan eina valkost til, þ.e. að selja sjóðinn.

Hún segir að vísu, með leyfi forseta:

„Þá telur verkefnisstjórnin það ekki vænlegan kost að sameina lánasjóðinn öðrum sjóðum eða stofnunum ...“

Það eru ekki settir upp valkostir og þeir metnir út frá tölulegum rökum heldur er þetta bara sett fram sem fullyrðingar. Ég vil spyrja ráðherrann hvort hann vilji ekki endurskoða þetta og kanna aðrar leiðir til að taka á framtíð sjóðsins en með þeim hætti sem þarna er lagt til. Ég get ekki séð að í skýrslu nefndarinnar hafi aðrir valkostir verið settir upp heldur er bara gengið út frá einum og aðrir slegnir út af borðinu með því einfaldlega að segja aðra kosti ómögulega.