131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

786. mál
[21:48]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held það sé ágætt að það komi skýrt fram að þetta er einmitt pólitísk niðurstaða en ekki fagleg. Þó svo ráðherra hafi látið fara fram þessa vinnu þá er niðurstaðan pólitísk og aðrir möguleikar faglegir eru ekki í sjálfu sér kannaðir. Þetta er ekki metið á þeim forsendum. Þetta er fyrst og fremst pólitísk niðurstaða. Þó ég sé ekki sammála þeirri pólitísku niðurstöðu þá finnst mér ráðherrann maður að meiri að viðurkenna það samt. Það er þá bara pólitísk ákvörðun sem ég er ekki sammála.

Varðandi það að styrkja lífeyrissjóðinn þá vil ég bara benda á að samfélagsleg ábyrgð er á Lífeyrissjóði bænda eins og öðrum lífeyrissjóðum. Það er núna verið að taka á Lífeyrissjóði sjómanna. Það er vitað að Lífeyrissjóður bænda á erfitt og ef heldur áfram að fækka í stéttinni og lífeyrissjóðsfélagar eldast þá mun vandi hans aukast. Þó svo að þarna kæmu 2–3 milljarðar inn í lífeyrissjóðinn í gegnum að selja þessa félagslegu eign sem ég tel nú lánasjóðinn vera þó svo að ríkið teljist eiga hann þá sé ég ekki að sú ráðstöfun leysi það vandamál og viðfangsefni Lífeyrissjóðs bænda til framtíðar. Það verður að taka á þeim þætti áfram. Það er bara samfélagsleg ábyrgð að tekið sé á málum Lífeyrissjóðs bænda óháð Lánasjóði landbúnaðarins, herra forseti.