131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

786. mál
[15:35]

Frsm. minni hluta landbn. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Svo mikill var flumbrugangurinn í vinnunni að það var ekki einu sinni hægt að kynna niðurstöðu nefndarinnar fyrir búnaðarþingi sem haldið var um miðjan mars. Þetta er ekki einkamál ríkisins þó svo að ríkið sé eigandi Lánasjóðs landbúnaðarins. Bændur hafa greitt til sjóðsins og þetta hefur verið einn aðallánasjóður landbúnaðarins um áratugi með Stofnlánadeildina sem forvera sinn. Það er því ekkert sem réttlætir svona flumbrulegt vinnulag.

Varðandi það að kannað hafi verið samstarf við Lífeyrissjóð bænda vil ég benda á að í fyrsta lagi starfar Lífeyrissjóður bænda samkvæmt sérlögum og hægt að kveða á um ákveðin sérverkefni við hliðina á honum, ég hef kannað það, ef vilji er fyrir hendi.

Í öðru lagi upplýsti fulltrúi Lífeyrissjóðs bænda sem kom á fund landbúnaðarnefndar að honum væri ekki kunnugt um að neinar formlegar viðræður hefðu farið fram á milli Lífeyrissjóðs bænda og ráðuneytisins eða annarra út af málinu.

Ég átel öll þau vinnubrögð sem liggja í frumvarpi ríkisstjórnarinnar um að einkavæða og selja Lánasjóð landbúnaðarins. Einkavæðingarfíkn núverandi ríkisstjórnar á sér engin takmörk, frú forseti, því miður.