131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

786. mál
[15:43]

Margrét Frímannsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Ég held að það sé nauðsynlegt að ganga frá því áður en til sölu lánasjóðsins kemur sem hugsanlega ein lánastofnun eða fjármálastofnun mun kaupa. Þó að ég sé ekki endilega sannfærð um að fyrir hann fáist miklir peningar er engu að síður verið að styrkja Lífeyrissjóð bænda, sem ekki er vanþörf á. En það verður að hugsa til þeirra sem hafa greitt gjaldið en eru ekki í lífeyrissjóðnum, með hvaða hætti greiðslur komi til baka til þeirra.

Ég vil beina þeirri spurningu til hv. þingmanns: Á að binda þá bændur sem eru nú þegar í Lánasjóði landbúnaðarins til að skipta við þá stofnun sem kaupir lánasjóðinn?

Einnig vil ég ítreka að það hlýtur að vera vilji þingsins að breyta lögum um stimpilgjald vegna þess að þetta er endurfjármögnun lána með því að flytja á milli stofnana. Það er mikil nauðsyn á að breyta lögunum áður en til sölunnar kemur.

Í þriðja lagi held ég að afar mikilvægt sé fyrir þingið, þá sem hafa starfað í landbúnaðarnefnd og fyrir bændur, Bændasamtökin og réttarstöðu þeirra að strax næsta haust verði skýrslu skilað til þingsins um vinnuna, um einstaka þætti sem fram hafa komið í umsögnum um málið. Að spurningar sem hafa vaknað og ekki eru afgreiddar hér verði teknar fyrir fljótlega í upphafi næsta þings þar sem farið verður yfir þróunina, en réttarstaða bænda verður að vera alveg klár.