132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Sala áfengis og tóbaks.

47. mál
[16:37]
Hlusta

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál hefur verið flutt nokkrum sinnum áður. Undirritaður flutti svipað mál á 123. þingi en síðan hefur þetta mál verið flutt á 130. og 131. þingi og hv. fyrrverandi þm. Vilhjálmur Egilsson flutti sambærileg mál á síðasta kjörtímabili.

Í örstuttu máli gengur frumvarpið út á það að einkasala Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins með annað en sterkt áfengi verði aflögð en með sterku áfengi er yfirleitt átt við áfengi með meiri vínandastyrk en 22%. Eins og við þekkjum er hér ekki um róttækt mál að ræða þar sem fleiri aðilar en ÁTVR eru í raun farnir að versla með allt áfengi, ekki bara létt áfengi og bjór en það er þó fremur bundið við landsvæði en eitthvað annað. Það er undantekning að ríkið standi í verslunarrekstri en slíkt er arfur frá gamalli tíð. Núna er þó ríkið með áfengi í smásölu og tóbak heildsölu og það er fróðlegt að skoða þetta með tilliti til sögunnar. Áfengisverslun ríkisins var sett á laggirnar árið 1922 þegar bannlögunum var aflétt, fyrr en Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, og Tóbakseinkasalan var stofnuð í byrjun 4. áratugarins þegar menn voru mjög gjarnir á að setja einokunarlög og hin ýmsu höft í íslenska löggjöf. Þar má t.d. nefna einkaleyfi á síldarsölu, einkasölu á viðtækjum, einkarétt til útvarpsreksturs. Seinna komu ýmis lög og höft vegna einokunarsölu bifreiða, símtækja og annars slíks og einungis fyrir rúmlega áratug var ríkið með einokun á því að flytja inn eldspýtur. Allt sem hér hefur verið nefnt og mörg fleiri höft og einokun sem hefur verið til staðar á Íslandi á það sameiginlegt að því hefur verið aflétt ef þetta er undan skilið.

Það hafa hins vegar orðið miklar breytingar á undanförnum árum. Ríkið átti verslunarhúsnæðið þar sem verslað var með áfengi en á seinni árum hafa menn samið við einkaaðila um að selja það og þá er ég sérstaklega að vísa til útibúa út um landið. Í rauninni má segja að nú sé það bara á höfuðborgarsvæðinu, með einni undantekningu þó, sem einkaaðilum er ekki heimilt að versla með þetta og menn þurfi þá ekkert annað en keyra t.d. austur fyrir fjall Hellisheiðina og í Hveragerði. Þar er verslað með áfengi, meira að segja sterkt áfengi í bensínstöð, og á Hvolsvelli og Hellu að ég tel, í Vík og á Djúpavogi. Þar er áfengið inni í matvöruverslunum og svo mætti lengi telja.

Það er gert ráð fyrir miklum takmörkunum í þessu frumvarpi. Það er gert ráð fyrir að sveitarfélögin ákveði afgreiðslutíma. Þó má hann ekki vera lengur en til klukkan 20 á kvöldin. Sveitarfélög geta líka sett frekari skilyrði um leyfi til að höndla með vöruna, t.d. með staðsetningu verslana og hvaða verslanir megi höndla með hana o.s.frv. Þá er gert að skilyrði að þeir sem afgreiða áfengi séu ekki yngri en 20 ára.

Rökin fyrir þessu eru einföld, virðulegi forseti. Í fyrsta lagi er ekkert sem bendir til þess að einkaaðilar geti ekki séð um þennan rekstur, þeir hafa gert það með góðum árangri. Í öðru lagi liggur það fyrir að verslunarmiðstöðvum og byggðarlögum hefur verið mismunað eftir staðsetningu útibúa ÁTVR og í þriðja lagi er um að ræða mikinn kostnað sem fylgir því að hið opinbera standi í slíkum verslunarrekstri og liggur það fyrir að eignir ÁTVR eru núna áætlaðar vel yfir þrjá milljarða kr. Það er augljóst að ef við mundum losa eitthvað um þá fjármuni gætum við nýtt þá í skynsamlegri hluti en ríkisverslun.

Virðulegi forseti. Ég sé enga ástæðu til að eyða lengri tíma í að ræða þetta hér. Þetta er einfalt mál sem skýrir sig sjálft. Þetta er ekki róttækt. Þvert á móti er stigið varlega til jarðar og kannski er fyrst og fremst um jöfnun að ræða milli aðila og byggðarlaga þar sem nú er það bara á höfuðborgarsvæðinu að verslanir af þessu tagi eru ekki inni í öðrum verslunum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og allsherjarnefndar.