132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Kyoto-bókunin.

281. mál
[18:39]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég geri mér vonir um að á 11. aðildarþinginu, eins og ég nefndi áðan, í Montreal geti náðst samkomulag um umræðugrundvöll fyrir viðræður um hvað taki við eftir að Kyoto-bókunin rennur sitt skeið árið 2012. En ég tel útilokað á þessari stundu að meiri árangur en það náist að þessu sinni. Það er enn langt í land að samkomulag náist um hvað gerist eftir Kyoto. Ég tel líka allt of snemmt að segja til um hvaða aðferð verður hægt að beita til að takast á við loftslagsmálin eftir 2012. Mesta óvissan í því sambandi er hvort unnt verður að fá þau ríki sem nú standa utan við bókunina til að taka þátt í henni. Það er meginverkefnið. Takist það ekki er erfitt að sjá fyrir sér framhaldið.

Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni Siv Friðleifsdóttur að við höfum Kyoto-bókunina í höndunum. Við Íslendingar erum aðilar að henni og það er okkar stefna í þessum málum. En meginforsendan fyrir árangri til framtíðar er að ná samstöðu ríkja um aðgerðir enda gefur augaleið að til að takast á við hnattræn viðfangsefni þarf hnattrænt átak. Það getur ekki gengið að sum ríki, jafnvel fjölmenn og með mikla framleiðslu, standi utan við átakið. Það einfaldlega gengur ekki upp. Það er algjörlega skýrt. Þetta er brennandi mál sem við verðum síðan að sjá hvernig þróast á næstu mánuðum og árum.