132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[14:59]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ágætt að hæstv. ráðherra árétti þetta, ég geri mér grein fyrir þessu. Ég teldi hins vegar að meiri ástæða væri fyrir hæstv. ráðherra að svara því hvers vegna ekki var hægt að vinna hraðar að þessum málum en gert hefur verið úr því að svona mikið liggur á. Nú varð það frumvarp sem var til umfjöllunar í vor ekki að lögum og hæstv. ráðherra hefði þá vegna þess hvernig staðan var kannski getað séð til þess að hér lægi fyrir — og ég óska þá eftir útskýringum á því — hvers vegna svo langan tíma þarf til að undirbúa þessi mál að ekki skuli vera hægt að gera þau betur úr garði en þetta. Ég vonast til að hæstv. ráðherra, ef hún fær þetta mál í gegn, sjái þá til þess að við fáum heildstæða niðurstöðu að öðru leyti hvað þá lagabálka varðar sem ég nefndi.