132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[17:16]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er mjög málefnaleg spurning sem kemur hér fram. Þannig er að verði þetta frumvarp að lögum hefur rannsóknaraðili forgang í tvö ár en ekki lengur og þá mun gilda hið sama um vatnsaflið og jarðvarmann hvað þetta varðar. Rannsóknir geta oft tekið langan tíma eins og við þekkjum í vatnsaflinu, en það sem er aðalatriðið og það sem hv. þingmaður spurði um var þetta með forganginn og gildir í tvö ár eftir að rannsóknum lýkur. Eins og hann sagði er um það að ræða að fái sá sem rannsakar ekki endanlegt nýtingarleyfi þá geti hann gert kröfu á endurgreiðslu vegna þess kostnaðar sem hann hefur lagt í og snýr að virkjuninni sem endanlega verður byggð.