132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[14:39]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Á 130. löggjafarþingi flutti ég ásamt þingmönnum úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokknum tillögu til þingsályktunar um breytingar á skipulagi á framkvæmd löggæslu. Frumvarp hæstv. ráðherra tekur að hluta til mið af þeim hugmyndum eins og um að lögregluumdæmin verði stækkuð og rannsóknardeildir styrktar eða stofnaðar við embættin.

En það var grundvallaratriði í tillögum okkar þingmannanna að ráðist yrði í það brýna verkefni að móta reglur um lágmarksþjónustu og lágmarksfjölda lögreglumanna í hverju umdæmi fyrir sig til að gætt sé almannaöryggis og að réttaröryggis íbúa sé tryggt í samræmi við lögreglulög.

Ég sé ekki að þetta hafi verið gert í þeirri nýskipan sem hæstv. ráðherra kynnir hér þó að það sé raunverulega grundvallaratriði að við breytingar á skipulagi og framkvæmd löggæslu sé byggt á úttekt á þörf fyrir lágmarksþjónustu og lágmarksfjölda lögreglumanna í hverju umdæmi.

Ég spyr ráðherra hvort þetta hafi verið gert og ef ekki, hvers vegna ekki.