132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[17:24]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni að þetta hættumat er mjög vandmeðfarið. Það er oft erfitt að átta sig á hvað er hættulegt og hvað er ekki hættulegt. Við getum best séð það núna af umræðunum í nágrannalandi okkar Danmörku. Við getum lesið það út úr ræðum og svörum forsætisráðherra Dana þegar hann fjallar um afleiðingar þess að danskt dagblað birti 12 skopmyndir af Múhameð spámanni. Við getum séð þar hvernig menn mátu það þegar þetta var birt fyrir nokkrum mánuðum og í hvaða stöðu menn eru komnir núna. Þannig að það er ekki hægt að gefa neitt eitt svar um þetta. En hins vegar verða menn að hafa tæki til að greina og átta sig á þróun og geta brugðist við þegar á þarf að halda.