133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[22:49]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson rifjaði hér upp hina glæsilegu ræðu sem hæstv. forseti flutti hið fyrsta sinni sem hún var kjörin forseti þessa þings. Með mikilli ánægju hlýddu menn á þá ræðu, ekki síst við sem höfum árum saman kvartað undan því að vinnubrögð Alþingis séu úr takti við þá þróun sem hefur orðið í samfélaginu. Breytingin sem hefur orðið meðal fólks er sú að menn vilja fá tóm til þess að sinna fjölskyldu sinni, það er partur af lífsgæðunum.

Það er sjálfsagt að horfa í gegnum fingur sér við forseta og þá sem stýra þessu þingi þó að í upphafi þingvetrar sé ráðist í að halda einn kvöldfund. En þegar við blasir að með offorsi á að reyna að keyra þetta mál fram með því að halda hér fundi bersýnilega kvöld eftir kvöld segi ég: Mér er nóg boðið. Mér er nóg boðið fyrir hönd forseta Alþingis sem lofaði okkur þingmönnum því að reynt yrði að koma skikkan á þingstörf þannig að menn gætu unnið þau eins og hverja aðra vinnu en þyrftu ekki að vera stöðugt vinnandi hér — þó að ég telji það ekki eftir mér — á tímum sem menn eiga að vera heima og sinna fjölskyldu sinni. Það lagði hæstv. forseti upp með. En ég virði henni það til vorkunnar að hún er fórnarlamb ráðherrafrekjunnar sem hér hefur tekið völdin. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Ég er ekki að tala hér um einn einstakan hæstv. ráðherra. Ég vil taka skýrt fram að ég tel að hæstv. menntamálaráðherra sé ekkert frekari en aðrir ráðherrar. Hins vegar eru þeir allir þessu marki brenndir, frú forseti. Ráðherrafrekjan, sem er annað orð yfir það sem kalla má ráðherraræði, hefur tekið hér völdin. Framkvæmdarvaldið er farið að hringla með þingið og þrýsta á þingið til þess að koma vilja sínum fram í hvaða máli sem er. En það er þingið sem á að setja sér sínar vinnureglur og þingið er samansett af stjórnarandstöðu og stjórnarliði og það hlýtur að þurfa að finna einhvers konar málamiðlun varðandi þingstörfin.

Hæstv. forseti fann þá málamiðlun í fyrstu ræðu sinni hér og hún hefur sannarlega sýnt vilja. Hún hefur ekki fengið frið fyrir þeirri afskræmingu á þingræðinu sem ég kalla ráðherraræði, og annað orð yfir það er ráðherrafrekja. Af hverju erum við hér til þess að ræða þetta mál, sem er stál í stál og verður erfitt að ná samkomulagi um, sem hæstv. ríkisstjórn tók af eigin hvötum af dagskrá á síðasta vori? Vegna þess að það er hæstv. ráðherra sem, kurteislega orðað, „af dæmafárri ýtni“ þrýstir þessu máli fram, þrýstir því í gegnum þingflokk sinn, þar sem hún vissulega hefur meiri hluta fyrir því. Hún hefur tæpast meiri hluta í stjórnarliðinu, það vita allir að verið er að valtra yfir Framsóknarflokkinn. Ég ætla reyndar að geyma mér þá ræðu.

Frú forseti. Minn punktur er þessi: Það er forsetinn sem á að ráða, (Forseti hringir.) ekki ráðherrafrekjan sem er að taka völdin í þessu þingi.