133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

aðgerðir gegn ofsaakstri í umferðinni.

[11:52]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Til að ná utan um þann yfirþyrmandi vanda sem glæfraakstur og ofsaakstur er á Íslandi í dag þarf að herða viðurlög við umferðarbrotum. Það þarf að stórauka sýnilega löggæslu á vegum úti og það er stór þáttur til að ná utan um ofsaaksturinn. Fólk er jú með manndrápstæki í höndunum og aki það eins og ábyrgðarlausir brjálæðingar verður það oft mannsbanar. Svo einfalt er málið. Sýnileg löggæsla skiptir þar mjög miklu máli. Rangar áherslur í löggæslu eru til staðar og það þarf að bæta verulega þar úr.

Hitt er að til lengri tíma litið þarf að ráðast í nýtt átak í samgöngumálum, eins og Morgunblaðið til dæmis fjallaði um í leiðara á dögunum, sem snýr að tvöföldun veganna. Það ásamt stóraukinni löggæslu og hertum viðurlögum er meginmálið. Á umferðarþyngstu vegarköflunum eru umferðartoppar gífurlegir og þungaflutningar um vegina miklir enda voru þeir jú færðir af sjó á land. Besta dæmið um þetta er tvöföldun á Suðurlandsvegi þar sem átt hefur sér stað um 90% umferðaraukning á tíu árum sem hefur skilað sér í því að vegurinn er nú umferðarþyngri en Reykjanesbrautin var þegar ráðist var í tvöföldun hennar. Þá eru slysin þar fjórfalt dýrari en á öðrum vegum utan þéttbýlis.

Þetta skiptir miklu máli. Við eigum að ráðast í nýtt átak í samgöngumálunum, í tvöföldun veganna — ég tek þar undir með hv. þingmanni Framsóknarflokksins um að þetta skiptir máli — auk tafarlausra úrbóta í hertum viðurlögum og sýnilegri löggæslu.

Þessu tengt vildi ég spyrja hæstv. samgönguráðherra hvort hann muni í þessu ljósi beita sér fyrir því að til dæmis tvöföldun á Suðurlandsvegi verði tekin upp við endurskoðun samgönguáætlunar núna í haust. Þetta er gífurlega mikilvægt mál og eitt af því sem við verðum að ráðast í í sérstöku þjóðarátaki við að tvöfalda og bæta vegina.