133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

hafnalög.

366. mál
[21:10]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á hafnalögum, nr. 61/2003. Frumvarp þetta var samið af endurskoðunarnefnd skipaðri af samgönguráðherra í samræmi við bráðabirgðaákvæði IV í lögunum. Nefndin var skipuð ýmsum fulltrúum hagsmunaaðila, svo sem hafnarstjórnar, Landssambands íslenskra útvegsmanna og Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, auk þess sem með nefndinni störfuðu starfsmenn ráðuneytisins og Siglingastofnunar Íslands.

Nefndinni var falið að meta hvernig til hefði tekist við framkvæmd laganna og gera tillögur að nauðsynlegum breytingum að fenginni reynslu. Niðurstaða nefndarinnar var að ekki væri komin mikil reynsla af lögunum þar sem tiltölulega stutt er síðan þau tóku gildi og framlengdur hefur verið gildistími 24. gr. laganna með sérstakri breytingu á hafnalögum sem Alþingi samþykkti á síðasta ári og sveitarstjórnir höfðu lagt ríka áherslu á.

Það er helst að gjaldtaka samkvæmt 17. gr. laganna hafi verið gagnrýnd, bæði af Hafnasambandi sveitarfélaga sem og einstökum höfnum og notendum hafna, en með lögunum voru afskipti stjórnvalda af gjaldtöku hafna afnumin og höfnum gert að setja sér gjaldskrá á grundvelli meginreglu um þjónustugjöld. Hefur sú gagnrýni einkum beinst að því að ekki sé hægt með viðunandi hætti að skipta rekstrarkostnaði skipa- og vörugjalda með þeirri aðferð sem ákvæðið gerði ráð fyrir og þar með ekki unnt að uppfylla grundvallarsjónarmið þjónustugjalda.

Drög að þessu frumvarpi voru lögð fyrir hafnasambandsþing sem haldið var síðasta haust á Höfn í Hornafirði og kynnt þar sérstaklega. Ekki voru gerðar neinar teljandi athugasemdir við frumvarpið af hálfu þingsins. Helstu breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu eru eftirfarandi:

Lögð er til sú breyting að skipulag hafna er falið hafnarstjórn en í núgildandi lögum er kveðið á um samráð við hafnarstjórn. Áfram er gert ráð fyrir samráði við Siglingastofnun og einnig að framkvæmdaleyfi sé gefið út af sveitarstjórn. Með tillögu þessari er í raun ekki verið að breyta fyrirkomulagi þessara mála, heldur færa lagaákvæðið til samræmis við þá framkvæmd sem nú tíðkast og er hagkvæmust. Þá er rétt að hafa í huga að þetta samrýmist einnig því að þar sem hafnir eru með sérstaka hafnarstjórn fellur kostnaður við deiliskipulag á hafnarsjóð og gildir það sama um hafnir sem falla undir 3. tölul. 8. gr. laganna.

Þá er fjallað um birtingu gjaldskráa. Fyrir gildistöku núgildandi hafnalaga var aðeins um að ræða eina gjaldskrá hafna sem gilti um allar hafnir landsins nema einstakar stóriðjuhafnir Gjaldskráin var gefin út af samgönguráðuneytinu og birt í Stjórnartíðindum. Engin ákvæði eru í núgildandi hafnalögum um birtingu gjaldskráa hafna, hvorki hafna í opinberum rekstri né einkarekstri. Framkvæmdin á því hvort og þá hvernig einstakar hafnir hafa staðið að birtingu gjaldskráa hefur verið mjög mismunandi og hefur Siglingastofnun frá því að lögin tóku gildi leitast við að birta á heimasíðu sinni yfirlit um þessar gjaldskrár. Jafnframt hefur verið ágreiningur um hvort höfnum í opinberum rekstri sé skylt að birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 15/2005 eða hvort um heimildarákvæði sé að ræða. Vegna þessa og til að tryggja að gegnsæi ríki um gjaldtöku hafna er lagt til að kveðið verði á um það í hafnalögum að höfnum sé skylt að birta gjaldskrár sínar með skýrum og aðgengilegum hætti, svo sem á netinu. Einnig er tekið fram, til að taka af allan vafa, að höfnum í opinberri eigu er heimilt að birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda en ekki er um skyldu að ræða.

Þá er fjallað um 17. gr. og upplýsingaskyldu hafna. Lagt er til að þrír gjaldflokkar verði sameinaðir í eitt nýtt gjald, hafnargjald, sem aftur skiptist í fjóra nánar tilgreinda kostnaðarliði. Gjaldinu sé ætlað að standa undir þeim kostnaði sem þar er tilgreindur og er höfnum heimilt að nota alla þessa kostnaðarliði í því skyni að mæta þeim kostnaði sem undir hafnargjaldið fellur. Nauðsynlegt er að gera tillögur um þessar breytingar þar sem núverandi ákvæði er að mati þeirra sem við hafnirnar starfa með öllu óframkvæmanlegt. Lagt er einnig til að notendur hafna geti krafið hafnarstjórn um upplýsingar um kostnað sem almennt hlýst af veittri þjónustu sem gjaldinu er ætlað að standa undir. Þetta er gert til að auka gegnsæi í þessum viðskiptum.

Þá er fjallað um breytingu á heimildum hafna sem ekki teljast til opinbers reksturs í gjaldtöku. Í núgildandi hafnalögum, nr. 61/2003, er kveðið á um gjaldtöku hafna sem ekki telst til opinbers reksturs í 1. málsl. 2. mgr. 20. gr. og er miðað við að gjaldtakan standi undir kostnaði við þá þjónustu sem veitt er, ásamt hlutdeild í sameiginlegum rekstri hafnarinnar. Eins og ákvæðið er orðað getur það valdið vafa um hvort heimilt sé að taka tillit til uppbyggingar hafnarinnar og viðhalds við gjaldtöku en ljóst er að slíkt er nauðsynlegur og eðlilegur hluti af starfsemi og rekstri hafnarinnar. Höfnum er ekki heimilt að taka tillit til arðsemiskrafna í gjaldtöku sinni og geta því vart skilað arði en gert er ráð fyrir því í 19. gr. laganna að svo sé. Því er lagt til að 1. málsl. 20. gr. verði breytt og kveðið á um að við gjaldtöku megi gera arðsemiskröfur með takmörkunum eins og nánar er gerð grein fyrir í athugasemdum við greinina.

Jafnframt er tekið fram að heimilt sé við gjaldtökuna að miða við stofnkostnað við uppbyggingu hafnarinnar og viðhald til að taka af allan vafa um slíka heimild. Áfram er tryggt í 19. gr. laganna að höfn sé ekki heimilt að greiða arð til eigenda sinna fyrr en eftir að fé hefur verið lagt til hliðar í fullnægjandi viðhald og endurnýjun hafnarinnar samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð hennar sem sett er samkvæmt 4. gr. laganna. Talið er að samkeppnislög og eftirlit Samkeppniseftirlitsins eigi að tryggja að höfn geti ekki gert óhóflegar arðsemiskröfur í gjaldskrá sinni.

Þá er fjallað um nýja endurskoðunarnefnd en það er lagt til að á ný verði tiltekið að endurskoðunarnefnd verði skipuð til að fara yfir reynsluna af þessum lögum. Í þetta sinn er miðað við að það verði gert eigi síðar en árið 2010 en þá ætti að vera komin nokkur reynsla á styrkjaákvæði núgildandi hafnalaga.

Virðulegur forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.