133. löggjafarþing — 43. fundur,  6. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[20:01]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Á leiðinni í stólinn spurði þingflokksformaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Hjálmar Árnason hvort ég ætlaði að hrósa Framsóknarflokknum. Það er rétt að í tilefni af því að við erum að ræða þetta frumvarp að ég geri það. Ég ætla að hrósa Framsóknarflokknum fyrir að hafa horfið frá villu síns vegar varðandi það mál sem hér er til umræðu.

Við erum að ræða mál, frú forseti, sem gengur töluvert langt í þá átt sem Samfylkingin hefur verið að berjast fyrir árum saman. Það felur í sér lækkun á lægra virðisaukaskattsþrepinu, úr 14% niður í 7%. Þetta er í samræmi við tillögu við frumvarp sem Samfylkingin hefur flutt hér árum saman. Það kom fram hvað eftir annað í umræðum að hér voru allir flokkar sammála því máli nema einn. Það var Framsóknarflokkurinn.

Þó voru menn teknir hér upp tvö ef ekki þrjú ár í röð til þess að inna Framsóknarflokkinn eftir því hvers vegna í ósköpunum hann legðist þvert í götu þeirra sem vildu beita sér fyrir því að lækka matarverð í landinu með þessum hætti. Það komu aldrei nein skýr svör. Það var, eins og menn vita, fyrst og fremst þáverandi formaður Framsóknarflokksins, sem af einhverjum ástæðum sem hugsanlega röktu sig til uppruna hans í endurskoðun, varð þess valdandi að Framsóknarflokkurinn var algjörlega á móti þessu máli.

Nú tel ég að Samfylkingin hafi hugsanlega gegnt hér hlutverki uppalandans því staðfastar ræður okkur hafa orðið til þess, hugsanlega með þrýstingi frá neytendum, að Framsóknarflokkurinn hefur horfið frá þeirri vitleysu sem hann fylgdi í málinu. Þó að það sé ekki hægt að segja um Framsóknarflokkinn að batnandi mönnum sé best að lifa á mörgum sviðum, þá ætla ég eigi að síður að gleðja hv. þm. Hjálmar Árnason með því að hrósa honum og hrósa Framsóknarflokknum fyrir að hafa loksins séð hin augljósu rök í þessu máli.

Frú forseti. Ég ætla að ganga lengra varðandi lofsamleg ummæli mín um hæstv. ríkisstjórn. Ég ætla að óska hæstv. fjármálaráðherra, Árna M. Mathiesen, innilega til hamingju með að hafa haft pólitískt hugrekki til þess að taka upp helminginn af tillögum Samfylkingarinnar varðandi lækkun á matarverði.

Það þarf oft pólitískt þrek til að taka upp hugmyndir andstæðinga sinna. Það hefur hæstv. fjármálaráðherra svo sannarlega sýnt. Hugsanlega birtir það líka skort á frumkvæði og nýjum hugmyndum í ranni Sjálfstæðisflokksins. Hins vegar skal ég af langri reynslu fúslega viðurkenna að nýjar og ferskar hugmyndir í stjórnmálum eru sjaldgæfar. Það er oft þannig að góðar hugmyndir sem komast til framkvæmda eru „teknar að láni“ frá öðrum.

Það fer þó fjarri því, frú forseti, að ég vilji saka hæstv. fjármálaráðherra um pólitíska gripdeild í þessu máli. Öðru nær. Það var þannig að fyrir síðustu kosningar voru Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn sammála um, og það kom fram í kosningastefnuskrám beggja flokkanna, að lækka bæri matarskattinn um helming, úr 14 niður í 7%. Samfylkingin hins vegar fylgdi orðum sínum eftir með dáðum. Á 130. og 131. löggjafarþingi lagði Samfylkingin fram frumvörp þar sem efnt var kosningaloforðið um lækkun matarskatts.

Þá brá svo við, frú forseti, sem undarlegt má heita svo ekki sé fastar að orði kveðið, að Sjálfstæðisflokkurinn felldi það frumvarp. Hann felldi sína eigin stefnu hér þing eftir þing.

Það er auðvitað í því ljósi ekki síður undarlegt að nú skuli hann líka, eins og Framsóknarflokkurinn, hafa séð ljósið, hafa séð blakta af týru réttlætisins í þessu máli og tekið upp þetta góða kosningamál Samfylkingarinnar sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, af því hann gengur hér í salinn vörpulegur að vanda, og að minnsta kosti nokkrir hans ágætu þingmanna í umræðum lýstu stuðningi við.

Þá má rifja það upp fyrir þeim ágæta hv. þingmanni og sér í lagi hæstv. fjármálaráðherra sem örugglega hlýðir hér einhvers staðar á mál mitt. Hvað kynni það nú að hafa verið sem olli sinnaskiptum ríkisstjórnarinnar? Ég held, frú forseti, að svarið blasi við og það sé öllum augljóst sem hafa fylgst með málinu.

Staðreyndin var sú að Samfylkingin lagði hér fram í sumar ígrundaða stefnu sem hún hafi reifað vel og ítarlega þar sem ráðist var til atlögu við allt of hátt matarverð með fjórföldum hætti. (Gripið fram í.) Eitt af þeim ráðum sem við lögðum til var hin gamla stefna okkar og Sjálfstæðisflokksins að lækka lægra þrep virðisaukaskattsins úr 14 í 7%. Það var fyrst og fremst sá tillöguflutningur Samfylkingarinnar sem varð þess valdandi að ríkisstjórnin uggði um sinn hag og hún greip til þess, eftir nánast 12 ára setu í Stjórnarráðinu, að leggja fram þær tillögur sem hér eru til umræðu.

Það var korteri fyrir þingbyrjun, hálftíma fyrir kosningar, af því þeir voru hræddir um sinn hag. Vegna þess að almenningur í landinu hefur óskað eftir og krafist breytinga af þessu tagi.

Það vildi líka svo til að ýmsir hv. þingmenn, þar á meðal fyrrverandi forsætisráðherra Davíð Oddsson og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þeir ásamt ýmsum öðrum sem voru andstæðrar skoðunar við mig hvað varðar aðild að Evrópusambandinu, höfðu bent á þá röksemd sem var fyllilega réttmæt að það væri hægt að lækka matarverð með töluvert drjúgum hætti án þess að ganga í Evrópusambandið. Það er röksemd sem ég hef alltaf fallist á, frú forseti. Það var gert.

En það var hægt, a.m.k. að mati þáverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, með ýmsum leiðum, en sá ágæti maður reifaði líka að hægt væri að fara tollabreytingaleiðina. Það var auðvitað partur af stefnu okkar í Samfylkingunni. Við lögðum í reynd fram fjórþætta stefnu.

Í fyrsta lagi að lækka virðisaukaskattsþrepið hið lægra úr 14 í 7%. Í því þrepi er að finna allar brýnustu nauðþurftir sem landsmenn þurfa á að halda. Því hefur verið haldið fram með ágætum rökum að breyting af þessu tagi komi ekki hvað best þeim til góða sem minnst hafa úr að spila. Enginn annar en hinn sjálfskipaði efnahagsspekingur ríkisstjórnarinnar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Pétur H. Blöndal tók undir þá röksemd í sjónvarpsþætti fyrir einum tveimur missirum.

Í öðru lagi lagði Samfylkingin til að öll vörugjöld yrðu afnumin. Þarna steig ríkisstjórnin hálfa leið, hún kaus að fella niður vörugjöld af um það bil helmingi vöruflokkanna en skildi eftir ákveðnar tegundir vara sem höfðu sykur í sér og gerði þetta vafalaust af mjög góðum hvötum og af þeim sömu hvötum sem stundum má sjá hjá stjórnlyndu stjórnvaldi að menn vilja að beita slíkum aðferðum til þess að stýra neyslu. Gott og vel. Það eru röksemdir sem ég ætla ekki að höggva í.

Okkar afstaða byggðist hins vegar á því að regluverkið sé svo flókið og frumskógurinn svo þykkur og dimmur að það sé ekki hægt að sjá til slóðar innan hans nema með því einu að fella hann allan. En þá erum við líka um leið komin út fyrir hann.

Í þriðja lagi lagði Samfylkingin til að allt samkeppniseftirlit yrði eflt mjög verulega. Þá má nú rifja það upp, frú forseti, að hér hafa ekki minni menn en núverandi forsætisráðherra og fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins báðir sagt það, með mismunandi hætti þó, að hættan við að fara þá leið sem Samfylkingin lagði til á sínum tíma og ríkisstjórnin hefur nú tekið upp, þ.e. lækkun á virðisaukaskattinum, væri skugga undirorpin. Sá skuggi fólst í því, að mati þessara ágætu forustumanna sem voru og eru í stjórnmálum, að óvandaðir smásalar kynnu að taka hluta af þessu eða jafnvel allt það rými sem þarna skapaðist og bæta við verð á vöru sinni og hirða þetta í eigin vasa.

Formaður Framsóknarflokksins fyrrverandi talaði alveg skýrt í þessum efnum. Formaður Sjálfstæðisflokksins núverandi talaði miklu myrkara í þessu. En flestir þingmanna Framsóknar sem um þetta hafa talað í umræðum á þingi hafa látið að þessu liggja og talað á svipaða lund.

Ég er nú ekki þeirrar skoðunar að kaupmenn á Íslandi séu sérlega óvandaðir og ég ber ekki mikinn kvíðboga fyrir þessu. En eigi að síður er rétt að setja byttu undir þennan hugsanlega leka. Það verður einungis gert með því að auka og efla samkeppniseftirlit. Auka verðlagseftirlit. En það ber ekkert á því, frú forseti. En þetta var eitt af því sem við í Samfylkingunni fylgdum líka.

Af því að ég veit að það gleður þá tvo hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem hér hlusta af mikilli athygli á mál mitt, þá verð ég líka að rifja upp fjórða þáttinn í stefnu Samfylkingarinnar sem var að breyta tollalögum. Það sem mestu skiptir varðandi verðlag á landbúnaðarvarningi hér á landi er sú staðreynd að innlendar vörur njóta verulegrar innflutningsverndar. Innflutningstollar, sem er auðvitað ein af uppfinningum andskotans þegar maður ber þá saman við stöðuna í nútímanum, leiða til þess að verð á innfluttum varningi og vörum sem keppa við þær á markaði er allt of hátt.

En það kemur líka annað í ljós. Eins og skoðun þess ágæta manns sem nefndur var í frammíkalli fyrr í ræðu minni, hagstofustjóra, mikið átrúnaðargoð okkar í stjórnarandstöðunni að ýmsu leyti, hann benti auðvitað á þennan skavanka líka. Hann benti á að svokallaðar staðkvæmar vörur, þ.e. vörur sem eru í samkeppni við hinar tolluðu vörur, lyfta sér líka í verði upp undir það samkeppnisskjól sem þeim stendur af hinum innflutta varningi.

Tollalagabreytingar mundu þess vegna leiða til miklu meiri og víðtækari verðlækkunar en beinlínis varðar þær vörur sem tollarnir hvíla á. Af því hér í salnum eru staddir menn sem eru aldir upp í grónum sveitum og eru miklir áhugamenn um landbúnað eins og ég er, og um íslenska bændamenningu, eins og ég er líka, þá má rifja það upp að ein merkilegasta tilraunin og nýbreytnin á þessum samtengdu sviðum, innflutnings og viðskipta annars vegar og innlendrar framleiðslu hins vegar, var auðvitað breytingin sem gerð var varðandi innflutningstolla á ýmiss konar grænmeti, fyrir einum tveimur árum síðan.

Þá réðust menn í það að afnema það með einni sveiflu. Samhliða var gerður sérstakur aðlögunarsamningur við framleiðendurna. Það voru margir hér í þessum sölum, eins og við sem hlustuðum á umræður um það munum eftir, sem töldu þetta allt hið versta mál. Af því að ég er í svo ærlegu stuði í kvöld skal ég viðurkenna, að þá var líka að finna í mínum flokki, og þær raddir heyrðust úr raddböndum míns flokks hér í salnum að þetta mundi leiða til þess að innlenda framleiðslan mundi hopa mjög undan. Það mundi draga úr framleiðslunni og hinn erlendi innflutningur sem ekki yrði lengur bældur eða kaffærður með tollum mundi ná yfirhöndinni.

En það er svo merkilegt að ef við skoðum reynsluna þá blasir allt annað við. Í fyrsta lagi ef við lítum á framleiðendurna. Þá hefur þeim að sönnu fækkað en þeir hafa styrkst og eflst. En framleiðslan jókst og verðið lækkaði. Þeir sem ég hef borið mig saman við um þetta sem hafa iðju af því dag hvern að selja t.d. tómata, þeir segja að á síðustu tveimur árum hafi salan á þeim tvöfaldast.

Nú ætla ég mér ekki þá dul að yfirfæra þetta með algjörlega hreinum hætti yfir á allan landbúnaðinn. En mér finnst nú samt að þessi tilraun, ef við getum kallað það svo, sem varðaði eina grein landbúnaðarins, hafi með býsna merkum hætti sett ljós á það sem kynni að verða framvindan í framtíðinni ef sú leið væri farin.

Nú sé ég það að hinir ágætu vinir íslenskra bænda sem hér eru staddir, bæði dýralæknirinn sem situr í aðherbergi og sveitamaðurinn sem ég nefndi með svo jákvæðum hætti áðan, þeir svona yggla kannski ekki brún, en hnykla þær. Þeir eru náttúrlega ekki sammála mér. Þá segi ég, frú forseti: Ég er alltaf reiðubúinn eins og menn vita af kynnum við mig og minn flokk að reyna að ná samkomulagi, ganga til málamiðlunar.

Það er þess vegna að minn flokkur lagði áherslu á að þessar tollabreytingar yrðu ekki gerðar í snöggri svipan. Við lögðum fram hugmyndir um að farið yrði það sama skref og hinn ágæti hagstofustjóri lagði til, þ.e. helmingurinn yrði tekinn í einu en hitt með samningum við greinina sjálfa. Þá má kannski staldra hérna aðeins við og velta fyrir sér: Hvaðan kemur þetta hlutfall, þ.e. helmingur? Af hverju dvelja menn við það? Af hverju ekki eitthvað minna eða meira?

Ástæðan er sú, frú forseti, að það hafa staðið yfir samningaviðræður sem kenndar eru við Doha innan vébanda Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Þær voru á sínum tíma nær runnar út í sandinn.

Það sem menn gerðu ráð fyrir á þeim tíma þegar talið var að þær mundu fæða af sér einhvern ávöxt, þá var talið að sú breyting sem þær leiddu til hvað innflutning varðar næmi einmitt þessu hlutfalli, 40–50%. Hæstv. landbúnaðarráðherra talaði sjálfur fjálglega um að líklegt væri að Íslendingar yrðu að lúta þessu og betra væri að þeir yrðu á undan.

Síðan breyttust vindar á höfum Doha-viðræðnanna og þeir hafa breyst aftur. Það er ekki langt síðan að ég sat fund Evrópunefndar forsætisráðherra þar sem ein af vonarstjörnum landbúnaðarráðuneytisins kom og greindi frá því að nú væru þær viðræður að hefjast aftur og pólitískir vindar blésu þannig í Bandaríkjunum að líklegt væri að þeim lyki hugsanlega fyrir næstu forsetakosningar þar.

Og þá segi ég nú, eins og hæstv. fjármálaráðherra þegar hann var hér að munnhöggvast við varaformann Samfylkingarinnar: Er ekki betra að Íslendingar semji um svona sjálfir áður en þeir verða látnir lúta því agavaldi sem fylgir aðild að þessari stofnun?

Ég nefni þetta hér, frú forseti, vegna þess að þetta fernt var uppistaðan í tillögum Samfylkingarinnar. Aukið samkeppniseftirlit, tollalagabreytingar þar sem innflutningsvernd væri minnkuð verulega. Afnám vörugjalda og lækkun virðisaukaskattsins.

Undir lok minnar vil ég aftur ræðu óska hæstv. fjármálaráðherra hjartanlega til hamingju með að hafa tekið upp helminginn af tillögum Samfylkingarinnar. Það er lofsvert. Hann má hvenær sem hann vill ganga í skó Samfylkingarinnar og aldrei skal hann af mér eða öðrum vera sakaður um pólitíska gripdeild þó hann grípi þar upp góðar hugmyndir.

En ég mun auðvitað harma það að hæstv. ráðherra skuli ekki fylgja því sem hann sagði sjálfur á sokkabandsárum sínum þegar hann var varaformaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, að stefna bæri í þá átt að afnema innflutningsverndina. En nú er hæstv. ráðherra að þessu leytinu til heillum horfinn, hann er kominn í nýtt kjördæmi og farinn að tala allt öðruvísi en hann gerði áður.

Ég vil líka óska honum til hamingju með að hann hefur, ekki bara tekið upp ýmsar góðar hugmyndir Samfylkingarinnar sem miklu varðar, heldur líka ýmsar smærri. Hæstv. ráðherra lýsti því yfir í andsvari við mig að þetta fæli í sér lækkun á virðisaukaskatti af gangagjaldinu, hann vildi líka lækka það gjald sem menn greiða fyrir að aka um jarðgöng eins og í Hvalfirði, um helming.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur loksins fallist á það, hugsanlega eftir langvarandi nudd tónlistarmanna, en líka okkar í Samfylkingunni og stjórnarandstöðunnar, að láta tónlistarframleiðslu njóta sömu lækkunar. Það er auðvitað guðsþakkarvert. En ástæðan fyrir þessu öllu saman, frú forseti, er auðvitað sú staðreynd að ríkisstjórnin sá sitt óvænna. Samfylkingin hafði frumkvæði og kjark til að leggja fram tillögur sem vissulega voru umdeildar en þær leiddu til slíkra undirtekta, a.m.k. hjá neytendum, að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn lögðu fram útspil á móti og það hefur leitt til þess að verið er að lækka matarverð í landinu verulega.

En ef ríkisstjórnin hefði hins vegar haft kjark til þess að taka allar tillögur Samfylkingarinnar upp, þá hefði það leitt til þess að matarreikningur heimilanna hefði lækkað tvöfalt meira. Ég skora á hæstv. ráðherra að sýna nú enn meiri kjark og taka allar tillögur Samfylkingarinnar upp.