133. löggjafarþing — 49. fundur,  9. des. 2006.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

435. mál
[16:30]
Hlusta

Frsm. allshn. (Guðjón Ólafur Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allsherjarnefndar um frumvarp til laga um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra. Frumvarpið er á þskj. 536 en álit allsherjarnefndar á þskj. 654.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurð Eyþórsson, Skúla Helgason, Guðlaug Þór Þórðarson, Kristínu Halldórsdóttur og Eyjólf Ármannsson frá nefnd fulltrúa þingflokka, Árna Pál Árnason, starfsmann nefndarinnar, Sigurð Þórðarson ríkisendurskoðanda, Sigurð Óla Kolbeinsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Svan Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði, og Gylfa Magnússon, dósent í viðskiptafræði. Þá komu einnig fyrir nefndina að eigin ósk Teitur Einarsson og Þórlindur Kjartansson frá Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Umsagnir bárust um málið frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Sambandi ungra sjálfstæðismanna.

Eins og hv. þingmönnum er kunnugt fjallar frumvarp þetta um lagalega umgerð stjórnmálastarfsemi á Íslandi og er undirbúið af hálfu nefndar allra þingflokka sem skipuð var árið 2005 af þáverandi forsætisráðherra, Halldóri Ásgrímssyni.

Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að rekja efni frumvarpsins sérstaklega enda hefur það verið gert við 1. umr. málsins í ágætri framsöguræðu hæstv. forsætisráðherra. Ég vil taka það fram að allsherjarnefnd leggur til að málið verði samþykkt með fjórum breytingum sem varða þrjú atriði.

Í fyrsta lagi er lagt til að framboð sem fái 5% fylgi í kosningum eigi rétt á styrk frá sveitarfélögum. Þetta varðar sveitarstjórnarkosningar en í frumvarpinu var gert ráð fyrir að þetta hlutfall væri 2,5%. Nefndin leggur því til að hlutfallið hækki úr 2,5% og verði 5%.

Þá er sömuleiðis lagt til að orðin „og skal hún vera í eðlilegu hlutfalli við stærð sveitarfélagsins“ í lokamálslið 5. gr. falli brott.

Næsta atriði sem nefndin leggur til og er kannski það veigamesta er að lagt er til að ákvæði um frambjóðendur til embættis forseta Íslands í 6. gr. frumvarpsins verði fellt niður. Ástæða þessa er fyrst og fremst sú að nefndin var á því að þessi mál þyrfti að skoða frekar að því er varðaði frambjóðendur til embættis forseta. Nefndin beinir því eindregið til forsætisráðherra að hafa forgöngu um tillögugerð hvað þetta varðar og þær tillögur hafi sömu meginreglur og gilda um aðra frambjóðendur í persónukjöri. Í samræmi við þetta verði breyting á c-lið 2. gr. frumvarpsins.

Loks er það síðasta atriðið sem allsherjarnefnd leggur til að verði breytt og það snýr að framlögum frá einstaklingum. Nefndin leggur til að það verði bundið við lögráða einstaklinga.

Breytingartillögu frá allsherjarnefnd er að finna á þskj. 655.

Undir álit allsherjarnefndar skrifa auk mín hv. þingmenn Ágúst Ólafur Ágústsson, Björgvin G. Sigurðsson, með fyrirvara, Birgir Ármannsson, með fyrirvara, Ásta Möller, Kjartan Ólafsson, með fyrirvara, og Magnús Þór Hafsteinsson.