133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

fjarskipti.

436. mál
[15:01]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál er þarft og nauðsynlegt auðvitað að skýrar, ákveðnar og afmarkaðar reglur séu bæði fyrir símafyrirtækin til að starfa eftir og ekki síður fyrir viðskiptavinina svo að þeir geti verið í góðri trú um að sú þjónusta sem keypt er sé veitt og þar sé öryggi sem viðheldur persónuvernd og því sem eðlilegt er. Hér segir: „Bann við að komið sé fyrir hugbúnaði í endabúnaði notanda án samþykkis þeirra. Notendur almennrar tal- og farsímaþjónustu sem liðar í markaðssetningu virði bannmerkt símanúmer í símaskrám.“ Og fleiri atriði eru þarna tekin.

Ég get líka tekið undir að það er nauðsynlegt að íslensk tunga sé aðgengileg við lagasetninguna þannig að hinn almenni notandi sem hyggst fletta upp í lagatextanum skilji réttarstöðu sína.

Allt er þetta mál í góðum farvegi og verður væntanlega unnið vel og í góðri samvinnu við hv. samgöngunefnd. Ég efa ekki að við munum kalla til okkar fulltrúa hjá Póst- og fjarskiptastofnun og vinna þá enn betur að þessu máli ef nefndarmönnum sýnist sem þarna þurfi að hnykkja á, einkum þar sem lýtur að öryggisþáttum viðskiptavina símafyrirtækjanna.