133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

vegalög.

437. mál
[17:34]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka svo vel undir þetta sjónarmið sem ég hef fært hér fram.

Eins og hér hefur komið fram segir í umsögn um 28. gr., með leyfi forseta:

„Sveitarstjórn fer með skipulagsvaldið og hefur í slíkum tilvikum heimild til að ganga gegn tillögum Vegagerðarinnar.“

Það er akkúrat sá punktur sem hæstv. ráðherra fjallaði um, þ.e. umferðaröryggismál sem mér finnst að í þessu tilfelli ættu jafnvel að fá forgang. Þar ættu umferðaröryggismálin jafnvel að ganga framar skipulagsvaldinu sem sveitarstjórn hefur gagnvart þessu. Það kann að vera ódýrara og hagkvæmara — ég ætla kannski ekki að hafa það hagkvæmara — fyrir viðkomandi sveitarfélag að fara þá leið sem það vill fara í skipulagsmálum til að tengja sig að þjóðvegi en miklu verra í umferðarlegu tilliti og á umferðaröryggissvæðum. Miðað við skipulagslögin er greinilega endanlegt val hjá sveitarfélaginu en Vegagerðin á að borga, og Vegagerðin og hæstv. samgönguráðherra og aðrir sem eiga að bera ábyrgð á umferðaröyggismálum verða að lúta í lægra haldi fyrir þessum sjónarmiðum.

Þetta finnst mér mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að komi fram. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka undir það og vegna þess að hér eru velflestir fulltrúar samgöngunefndar, þar á meðal formaður samgöngunefndar, tek ég fram að ég held að við þurfum að taka þetta sérstaklega vel upp og ræða við Vegagerðina um málið. Þó að ég sé ekki mikið fyrir að ganga á hagsmuni sveitarfélaga og taki frekar til varnar fyrir sveitarfélög gagnvart stóra bróður, ríkisvaldinu, held ég að þarna sé bara það mikil nauðsyn vegna umferðaröryggismála að vegagerðar- og umferðaröryggissjónarmiðin þurfi að fá að verða ofan á og yfirsterkari öðrum atriðum.