133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Þjóðskjalasafn Íslands.

642. mál
[18:08]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. menntamálaráðherra gerist nokkuð alhæfingasöm. Hér var verið að veitast að og átti að veitast að löglega kjörnu þingi. Íslenskur verkalýður og andstæðingar NATO söfnuðust hér fyrir utan, 30. mars 1949, til að krefjast þess að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um inngöngu Íslands í NATO. Er það glæpsamlegt? Það sem gerist hins vegar er að stjórnvöld hvetja almenning til andófs gegn þessu fólki, safna saman varðliðum hér í húsinu og lögreglu sem ræðst síðan út á fólkið með táragasi og í kjölfarið eru nokkrir einstaklingar dregnir fyrir dómstóla. Það eru haldin yfir þeim réttarhöld og sumir þessara manna eru dæmdir, þessara einstaklinga, til þess sem átti að vera ærumissir. Það voru höfð af þeim mannréttindi, þeir sviptir kosningarrétti. Það er þetta sem við erum að tala um.

Síðan er reynt að gera því skóna að eitthvað allt annað hafi vakað fyrir þessum mönnum. Þeir voru einfaldlega að andæfa því að Ísland yrði hluti af hernaðarblokkinni NATO og leyfðu sér að láta þá skoðun í ljósi, leyfðu sér að efna til fjöldafundar til þess að krefjast þjóðaratkvæðis um inngönguna í NATO sem var ákveðin hér. Og það er ekki í fyrsta sinn og sem betur fer ekki í síðasta sinn og á eflaust eftir að verða um komandi tíma að fólk reyni að láta í ljós skoðanir sínar og vilja fyrir framan þinghús Íslendinga. (Menntmrh.: Ekki með því að grýta húsið.) Og krafan á þessum tíma var lýðræðisleg, það var krafa um að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um inngöngu Íslands í hernaðarbandalagið NATO.