133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[18:33]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get alveg endurtekið svar mitt við þeirri fyrirspurn hv. þingmanns sem flutt var áðan. Ég hef enga ástæðu að ætla annað en að menn séu almennt að fylgja þessum lögum í hvívetna.

En það hefur komið fram í þessum þingsal og í ábendingum og umkvörtunum aðila að það kunni að vera tilvik þar sem menn hafa gengið á svig við lögin. Þegar menn fóru að fara yfir það hvort Verðlagsstofa hefði allar þær heimildir sem hún þyrfti á að halda til að fylgjast með þessu var niðurstaðan sú, bæði meðal aðila vinnumarkaðarins og okkar í sjávarútvegsráðuneytinu, að það væri til bóta og það mundi styrkja framkvæmd laganna, styrkja anda þessara laga, að sett væru inn ákvæði sem gæfu Verðlagsstofu skiptaverðs öflugri tæki til að fara ofan í málin og skoða hvort farið væri eftir þeim fiskverðssamningum sem gerðir hefðu verið og framvísað væri í upphafi, því það er ekki þannig að menn séu að framvísa svona fiskverðssamningum á hverjum degi heldur er þeim framvísað í upphafi.

Ég held að menn hljóti að fagna þessu af því ég trúi því að andi laganna sé mjög í anda (Forseti hringir.) þess sem hv. þingmenn hafa talað um og talað margoft fyrir úr þessum ræðustóli.