133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[13:58]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er komið til 2. umr. frumvarp til laga um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra. Ég held að það sé alveg óhætt að segja það, virðulegi forseti, að í félagsmálanefnd var bærileg sátt um þetta mál enda er hér verið að styrkja stjórnkerfið til þess að koma í veg fyrir undirboð og tryggja sambærileg réttindi erlendra starfsmanna, sem hingað koma, til kjara og aðbúnaðar eins og Íslendingar hafa.

Markmiðið er þríþætt, eins og kemur fram í nefndarálitinu, „að tryggja að starfskjör, tryggingar og aðbúnaður starfsmanna fyrirtækja, sem hafa staðfestu í öðru ríki Evrópska efnahagssvæðisins og veita tímabundna þjónustu hér á landi, sé ekki undir þeim lágmarksviðmiðunum sem kveðið er á um í lögum og kjarasamningum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði“. Hér eru á ferðinni afar mikilvæg ákvæði í þessu frumvarpi fyrir þá útlendinga sem hér starfa.

„Í öðru lagi miðar frumvarpið að því að jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja sem stunda atvinnustarfsemi hér á landi. Í þriðja lagi er tilgangurinn að auka skilvirkni eftirlits og gera stjórnvöldum betur kleift að hafa yfirsýn yfir íslenskan vinnumarkað.“

Það er kannski sá þáttur sem snýr að því hvaða möguleika stjórnkerfið hefur til þess að hafa eftirlit með framkvæmd þessara laga sem við gerum ákveðinn fyrirvara við auk þess fjármagns sem í þetta verður sett og nokkur önnur atriði sem ég mun koma inn á.

Það er ástæða til að halda því til haga að hér er á ferðinni frumvarp sem félagsmálanefnd kallaði eftir í fyrravor þegar við afgreiddum frumvarpið um frjálsa för launafólks til landsins sem tók gildi 1. maí sl. Við töldum mikilvægt að settar yrðu í lög tillögur og aðgerðir til þess að styrkja vinnumarkaðskerfið til að tryggja að erlent starfsfólk njóti þeirra réttinda og kjara sem gilda á íslenskum vinnumarkaði sem við þekkjum að töluvert mikill misbrestur hefur orðið á. Við lögðum áherslu á það sem er auðvitað grundvallaratriði, að fjölgun erlendra starfsmanna sem hér eru raski ekki reglum og samskiptahefðum sem hafa mótast á íslenskum vinnumarkaði. Það er grundvallaratriði að vera þeirra útlendinga sem hingað koma og starfa verði ekki til þess að rýra réttindi og kjör Íslendinga á vinnumarkaði. Það er brýnt að öll löggjöf sé með þeim hætti að hún verndi og styðji þau réttindi sem íslensk verkalýðshreyfing hefur barist fyrir í marga áratugi, en að hér komi ekki upp sú staða að það verði afturhvarf inn í fortíðina að því er varðar réttindi íslensks launafólks. Það er það sem við höfum haft áhyggjur af og þess vegna er þessi leið farin með þessu frumvarpi sem framsögumaður félagsmálanefndar hefur hér lýst.

Það sem við höfum haft áhyggjur af er hvort Vinnumálastofnun sé í stakk búin til að fylgja málunum eftir í samráði við verkalýðshreyfinguna og samtök atvinnurekenda. Þessi löggjöf hér er nokkuð metnaðarfull en allt veltur á því að framkvæmdin sé með þeim hætti að tryggt sé að með þeim ákvæðum sem hér eru sett fram sé fullt eftirlit, að þau skili sér í framkvæmdinni. Sú er kannski meginástæðan, virðulegi forseti, fyrir þeim fyrirvara sem a.m.k. fulltrúar Samfylkingarinnar í þessari nefnd hafa sett.

Fjármagn sem Vinnumálastofnun fær er afar lítið. Fjárlagaskrifstofan gerir ráð fyrir að frumvarpið muni leiða til 7,5 millj. kr. útgjaldaaukningar hjá Vinnumálastofnun og síðan segir hjá fjárlaganefnd að þessi útgjaldaaukning eigi að rúmast innan fjárlagaramma stofnunarinnar. Þetta er það sem við drögum í efa, það er sífellt verið að bæta fleiri og fleiri verkefnum á Vinnumálastofnun. Ég held að alls ekki alltaf hafi fylgt fjármagn til þess að framfylgja þeim verkefnum sem Vinnumálastofnun á að skila og því eftirliti sem hún hefur með höndum. Ef framkvæmdin á þeim málum sem hér er verið að festa í lög verður þannig að ekki sé hægt að hafa eftirlit með þeim og þetta verði allt í skötulíki er auðvitað til lítils af stað farið. Þess vegna er það grundvallaratriði sem við setjum hérna fram, að það sé tryggt að hægt sé að hafa eftirlit með þessu. Við höfum líka haft áhyggjur af því að ekki sé nægjanlega tekið á því í þessu frumvarpi. Það kom fram í starfi nefndarinnar sem ekki hefur komið fram í nefndarálitinu og ég set hér fram. Við teljum að það þurfi að halda skrá og gera úttekt á menntun hjá erlendu starfsfólki sem hingað kemur. Maður heyrir allt of mikið um að brögð séu að því að erlendir starfsmenn sem hingað koma fái ekki greitt í samræmi við þá menntun sem þeir hafa. Ég hefði viljað sjá að það væri eitt af þeim verkefnum sem væru á hendi Vinnumálastofnunarinnar, og þá eftir atvikum verkalýðsfélaganna, að fylgjast með því að ekki séu undirboð að því er þennan þátt varðar, að ekki sé metin menntun þessara erlendu starfsmanna og þeir hafi ekki launakjör í samræmi við menntun sína. Það væri gott ef formaður félagsmálanefndar kæmi síðar í þessa umræðu að hún ræddi aðeins þann þáttinn en þetta er nokkuð sem við í Samfylkingunni höfum haft áhyggjur af.

Sömuleiðis höfum við haft áhyggjur af því, og það er kannski ekki nægilega girt fyrir það í þessu frumvarpi, að undirboð eigi sér einnig stað í kringum verktakasamninga, að launaliðurinn sé þar vanmetinn með hliðsjón af íslenskri löggjöf og kjarasamningum og að það komi fram í útboðum og skekki þá samkeppnisstöðu fyrirtækja í atvinnulífinu.

Þetta eru þau atriði sem ég vildi nefna. Umsagnir með frumvarpinu eru yfirleitt jákvæðar. Tryggingastofnun gerði athugasemdir varðandi það sem snýr að henni sjálfri. Ég hafði ekki tök á að sitja fundinn þegar fjallað var um þann þátt málsins en ég spyr hv. formann nefndarinnar hvort ekki sé örugglega tekið á þeim athugasemdum og áhyggjum sem maður gat lesið út úr umsögn Tryggingastofnunar ríkisins að því er varðar framkvæmdina á því sem snýr að réttindamálum erlends starfsfólks. Ég geri ráð fyrir að farið hafi verið yfir þann þátt mála og að ekki komi til þess að misbrestur verði á framkvæmdinni eða vandamál eins og Tryggingastofnun hefur áhyggjur af.

Umsögn Alþýðusambands Íslands er afar jákvæð. Í henni segir að þarna sé verið að tryggja mikilvægar réttarbætur á ýmsum sviðum, m.a., með leyfi forseta, „að erlendir starfsmenn sem koma hingað á vegum erlendra þjónustufyrirtækja eða starfa hjá starfsmannaleigum skuli njóta sömu eða sambærilegra kjara og réttinda og ef þeir væru ráðnir beint til fyrirtækja með staðfestu hér á landi“.

Það er auðvitað afar þýðingarmikið að við séum þó að færa okkur nær því að tryggja betur aðbúnað og kjör erlendra starfsmanna með því að ráðningarkjörin séu með þeim hætti að erlendu starfsmennirnir séu ráðnir beint til fyrirtækja og á ráðningarsamningi við þau fremur en í gegnum starfsmannaleigurnar sem allt of mikið var af. Þar fóru fram þessi undirboð sem við þekkjum að hafi viðgengist að því er varðar erlent starfsfólk.

ASÍ segir hér, með leyfi forseta:

„a) … Það þýðir að erlent launafólk þessara fyrirtækja á að njóta þeirra kjara og réttinda sem gilda á íslenskum vinnumarkaði og að komið er í veg fyrir að erlend þjónustufyrirtækjum njóti samkeppnisforskots gagnvart fyrirtækjum með staðfestu hér á landi vegna lakari kjara eða réttinda starfsmanna sinna.

b) Gerð er krafa um að erlend þjónustufyrirtæki og starfsmannaleigur þurfi að tilkynna um starfsemi sína hér á landi og veita upplýsingar um þá starfsmenn sem hjá þeim vinna, aðbúnað og kjör þeirra. Þá er gerð sú almenna krafa að erlend þjónustufyrirtæki hafi fulltrúa sem kemur fram fyrir þeirra hönd meðan þau eru með starfsemi hér. Þannig er reynt að tryggja að þessi fyrirtæki geti aðeins starfað hér löglega með því að vera búin að upplýsa um starfsemi sína og starfi fyrir opnum tjöldum.“

Allt er þetta, virðulegi forseti, mikið til framfara. Við náum því markmiði sem við öll hljótum að setja okkur, að kjör og aðbúnaður erlendra starfsmanna verði til samræmis við það sem hér gildir í íslenskum kjarasamningum og lögum.

„c) Síðan eru í þessu frumvarpi gerðar kröfur til notendafyrirtækja um að þau fylgi því eftir að erlend þjónustufyrirtæki sem fyrir þau starfa hér á landi hafi sinnt tilkynningarskyldu sinni. Jafnframt eru lagðar á þau þær skyldur að aðstoða stjórnvöld við öflun upplýsinga og eftirlit með starfsemi erlendu þjónustufyrirtækjanna og starfsmannaleigna, ef eftir því er leitað.

d) Tryggðar eru heimildir stjórnvalda til að stöðva tímabundið starfsemi erlendra þjónustufyrirtækja og starfsmannaleigna ef þau verða uppvís að brotum, auk þess sem í lögunum eru að finna viðurlagaheimildir.“

Á þessum atriðum í umsögn ASÍ sést hve mikilvæg ákvæði eru á ferðinni í þessu frumvarpi en enn og einu sinni undirstrika ég að allt veltur þetta á framkvæmdinni.

Verkalýðsfélag Akraness og reyndar Starfsgreinafélag Austurlands hafa sett fram vissar aðvaranir og fyrirvara að því er varðar álit þeirra á þessu máli. Ágætt er að halda því til haga.

Hjá Verkalýðsfélagi Akraness segja þeir t.d., með leyfi forseta:

„Til að tryggja að erlendir starfsmenn samkvæmt lögunum njóti þeirra starfskjara sem lögin kveða á um er eðlilegt að setja þá kröfu á notendafyrirtækin að þau hafi ávallt undir höndum ráðningarsamninga og sé óheimilt að nýta sér þjónustu viðkomandi nema kjör samkvæmt ráðningarsamningi séu í samræmi við lögbundin starfskjör.“

Hér er á ferðinni ákvæði sem þetta sama verkalýðsfélag setti fram þegar við fjölluðum um frjálsa för launafólks á síðasta vorþingi sem nokkuð var tekist á um. Ég minni á og vil halda því til haga, virðulegi forseti, að við í Samfylkingunni studdum það mjög að slíkt ákvæði yrði sett inn sem setti meiri ábyrgð á notendafyrirtækin gagnvart t.d. starfsmannaleigunum og fluttum um það breytingartillögu ef ég man best sem ekki náði fram að ganga þannig að enn halda þeir þessu til haga.

Þeir segja fyrr í umsögninni hjá Verkalýðsfélagi Akraness:

„Reynsla félagsins af þessum málum hefur sannað nauðsyn þess að stéttarfélögin fái skýra heimild til að afla gagna varðandi erlent vinnuafl, t.d. ráðningarsamninga, tímaskriftir og launaseðla og það án þess að grunur um brot sé til staðar. Er eðlilegt að þessi heimild nái til allra aðila er koma að slíku vinnusambandi, þ.e. fyrirtækja, notendafyrirtækja og Vinnumálastofnunar. Reynslan sýnir að erlent starfsfólk veit almennt lítið um réttindi sín á íslenskum vinnumarkaði og veigrar sér við að leita aðstoðar verkalýðsfélaganna.“

Þetta er auðvitað til umhugsunar sem hér er sett fram, þ.e. að erlent starfsfólk viti lítið um réttindi sín á íslenskum vinnumarkaði og þá væntanlega almennt réttindi sín í íslensku samfélagi. Það verður fróðlegt að fá fram hvernig því miðar að útbúa handhægar upplýsingar fyrir fólk til þess að það viti um réttindi sín á íslenskum vinnumarkaði. Það er grundvallaratriði til þess að við náum því fram sem við viljum að ekki sé verið að hlunnfara þetta fólk.

Hér segir áfram:

„Dæmin sanna einnig að einstaka atvinnurekendur hafa nýtt sér þessa vankunnáttu. Jafnvel aðilar sem almennt er talið að láti sér annt um ímynd sína. Er ljóst að þótt ráðningarsamningur liggi fyrir sem tryggi laun í samræmi við gildandi lög er það engin trygging fyrir því að viðkomandi launþega séu greidd lögbundin laun í samræmi við ráðningarsamning.“

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Á stéttarfélögum hvílir skylda til að tryggja að á félagssvæði þeirra sé unnið samkvæmt íslenskum lögum og kjarasamningum og hafa þau víðtæka hagsmuni af því að svo sé gert. Er með öllu óskiljanlegt ef ekki er vilji til að notfæra sér þessa eftirlitsleið. Stéttarfélögin hafa á að skipa starfsfólki með víðtæka reynslu í túlkun kjarasamninga og með þekkingu á hinum ýmsu sérkjarasamningum sem í gildi eru. Óeðlilegt er hins vegar að blanda trúnaðarmönnum á vinnustað inn í þetta. Þeirra hlutverk samkvæmt lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur nær ekki til eftirlits hvað varðar starfsfólk á vinnustað sem eru í vinnuréttarsambandi við þriðja aðila. Jafnframt verður að hafa í huga að þetta eftirlit er þess eðlis að eðlilegra er að það sé alfarið í höndum viðkomandi verkalýðsfélaga. Auk þess sem verið er að gæta hagsmuna viðkomandi starfsmanna er hér um að ræða hagsmuni verkalýðshreyfingarinnar sem og samfélagsins.“

Ég get tekið undir margt af því sem fram kemur hjá Vilhjálmi Birgissyni, formanni Verkalýðsfélags Akraness. Hann þekkir þessi mál vel og hefur oft sett fram athyglisverðar ábendingar og tillögur að því er þessi mál í heild varðar þannig að það er rétt að leggja við hlustirnar þegar þeir leggja fram sjónarmið sín í þessu máli.

Alþjóðahús sendi líka inn umsögn, virðulegi forseti. Ég held að ástæða sé til þess að setja inn í þingtíðindi hvað Alþjóðahús hafði um málið að segja. Þetta eru þeir aðilar í Alþjóðahúsi sem best þekkja til aðbúnaðar erlendra starfsmanna, vita hvar skórinn kreppir, vita á hverju þarf að taka. Ég ætla aðeins að drepa á þá umsögn, með leyfi forseta, en þar segir:

„Eftirfarandi athugasemdir skulu gerðar við efni frumvarpsins:

1. Að mati Alþjóðahúss er það mjög til bóta að starfsmönnum, í skilningi frumvarpsins, skuli tryggður réttur til launa í veikinda- og slysatilvikum. Hingað til hefur réttur einstaklinga í þessari stöðu verið fremur óljós og er því um réttarbót að ræða.“

Ég vísa einmitt til þessa þegar ég spyr formann nefndarinnar um þær athugasemdir sem Tryggingastofnun setti fram, hvort ekki sé alveg skýrt að engir hnökrar verði á framkvæmdinni að því er varðar réttarbætur í frumvarpinu um rétt til launa í veikinda- og slysatilvikum. Ég held áfram tilvitnun, með leyfi forseta:

„Sérstaklega er því fagnað að starfsmönnum skuli tryggður mismunur launa ef réttur hans samkvæmt ákvæðum 5. gr. frv. er hagstæðari. Þá er til bóta að í 7. gr. frumvarpsins er kveðið skýrt á um að tryggja skuli starfsmönnum bætur vegna andláts, varanlegs líkamstjóns og tímabundins missis starfsorku. Alþjóðahús lýsir jafnframt yfir ánægju sinni með 4. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um löggjöf sem gilda skuli þegar fyrirtæki sendir starfsmenn hingað til lands í skilningi laga þessara án tillits til erlendrar löggjafar sem að öðru leyti gildir um ráðningarsamband starfsmanna og fyrirtækis. Alþjóðahús telur jákvætt að skyldur skuli jafnt vera lagðar á erlend fyrirtæki sem notendafyrirtæki, þ.e. að innlenda þjónustukaupanum skuli m.a. vera ætlað að gæta þess að seljandi þjónustunnar, þ.e. erlenda fyrirtækið, hafi uppfyllt sína tilkynningarskyldu. Að mati Alþjóðahúss mætti bæta við áskilnaði um að við útboð verkefna hjá ríki og sveitarfélögum skuli synja þeim sem brotið hafa gegn ákvæðum laganna um þátttöku. Slíkt yrði til þess fallið að efla fylgni við ákvæði laganna.“

Ég tók eftir þessari ábendingu hjá Alþjóðahúsi sem mér fannst mjög athyglisverð. Ég veit ekki hvort þetta hefur eitthvað sérstaklega verið tekið fyrir á þeim fundi sem ég gat ekki sótt í félagsmálanefnd.

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu er Vinnumálastofnun falið viðamikið hlutverk. Er stofnuninni ætlað að viðhafa umfangsmikið eftirlit, sem og söfnun upplýsinga, varðveislu þeirra og miðlun. Hins vegar fær Alþjóðahús ekki séð að stofnuninni séu ætlaðir fjármunir til að gegna þeim verkefnum sem að framan greinir. Leggur Alþjóðahús því til að skýrt verði kveðið á um fjárveitingar Vinnumálastofnun til handa svo stofnunin megi rækja það hlutverk sem henni er ætlað samkvæmt frumvarpinu, ella er hætt við að stofnuninni verði mjög örðugt að sinna þeim.“

Hér er nákvæmlega tekið undir eina af þeim meginathugasemdum sem við í Samfylkingunni gerðum vegna framkvæmdar þessara laga. Við höfum áhyggjur af því að undirstaðan sé ekki nægilega trygg um eftirlit þegar svona rýrt er ætlað í fjárveitingum til Vinnumálastofnunar. Hefði verið ástæða til þess að fá það upp hjá formanni nefndarinnar hvort hún hafi ekki af því einhverjar áhyggjur og hvort úr verður bætt ef við stöndum uppi með það á miðju fjárlagaári að ekki sé hægt að framkvæma þessi lög af því að það vanti fjármuni til að framfylgja þeim.

Margar umsagnir bárust um málið. Ég fór ekki nema að hluta til yfir það sem Alþjóðahús og Verkalýðsfélag Akraness sögðu. Ég vil að lokum, í stuttri yfirferð yfir umsagnirnar, minnast á það sem Starfsgreinafélag Austurlands segir. Eðli máls samkvæmt ætti þeim að vera vel kunnugt um kjör, aðstæður og aðbúnað erlendra verkamanna sem að verulegum hluta eru einmitt við framkvæmd Kárahnjúkavirkjunar. Þeir tala um félagsleg undirboð og hafa af því áhyggjur og segja, með leyfi forseta:

„Það er skoðun Afls – Starfsgreinafélags Austurlands að til að berjast gegn félagslegum undirboðum á vinnumarkaði þurfi:

1. Að skýra reglur og hörð viðurlög við brotum á lágmarkskjörum launafólks.

2. Tryggt upplýsingaflæði til erlends launafólks og aðgang stéttarfélaga að erlendu launafólki þannig að unnt sé að afla réttra upplýsinga um kjör þess.“

Þeir segja í lokin, með leyfi forseta:

„Við vekjum athygli á því að við metum stöðuna þannig að við séum hreinlega í nauðvörn fyrir kjörum launafólks á svæðinu. Með félagslegum undirboðum er verið að grafa undan lífskjörum okkar félagsmanna og brotið er á erlendu launafólki vísvitandi. Nú þegar hefur þetta bitnað helst á þeim sem síst skyldi, lægst launuðu félagsmönnum okkar í ýmiss konar þjónustustörfum.

Enn fremur er hart sótt að félagsmönnum okkar í ýmsum iðngreinum og má sérstaklega nefna byggingariðnað og málmiðnað. Hér er starfsfólk með óstaðfest iðnréttindi að ganga í störf íslenskra iðnaðarmanna og dæmi eru um heil fjölbýlishús í byggingu þar sem varla sjást iðnmenntaðir menn.

Ef ekki verður brugðist hart við má búast við að undirboð herji á vinnumarkaðinn allan innan tíðar og þannig verði grafið undan velferðarkerfi okkar. Við biðjum því þingmenn að taka ábendingar okkar til málefnalegrar umfjöllunar.“

Þetta er nokkuð harðort í lokin frá Starfsgreinafélagi Austurlands. Ég verð að hafa þá trú, virðulegi forseti, að frumvarpið sem við ræðum bæti úr og komi í veg fyrir það sem hér var lýst en enn og aftur fer það eftir framkvæmdinni. Það verður verk okkar jafnaðarmanna, ef þessi löggjöf dugar ekki, að herða enn frekar á ákvæðum að því er varðar réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja. Við verðum að beita öllum ráðum til þess að koma í veg fyrir að brotið sé á erlendu launafólki. Við vitum að það mun leiða til þess að einnig verður brotið á íslensku launafólki. Ef við viljum getum við sett þá löggjöf og þær reglur og staðið þannig að framkvæmdinni að aðbúnaður og kjör erlends vinnuafls sé til sóma fyrir okkur Íslendinga. Ef við gerum það er það til hagsbóta fyrir allt samfélagið. Við þurfum á margan hátt á þessu fólki að halda á okkar vinnumarkað til uppbyggingar á hagvexti en það má ekki koma niður á réttindum og aðbúnaði íslensks launafólks. Ef við stöndum bærilega saman í því að reisa þær girðingar sem þarf til þess að ekki sé verið að misnota erlent launafólk þurfum við ekkert að óttast þó að erlent fólk sæki hingað til lands til starfa.

Það er tvennt sem ég vil fara inn á í lokin. Í fyrsta lagi hef ég áhyggjur af því og ekki bara áhyggjur — ég hreinlega átel ríkisstjórnina fyrir það að hún skuli sýna þinginu þá lítilsvirðingu að leggja ekki stefnu ríkisstjórnarinnar um aðlögun innflytjenda fram til þinglegrar meðferðar og umfjöllunar í félagsmálanefnd. Við ættum að geta farið yfir stefnuna og mótað, sent hana út til umsagnar, fengið aðila sem best þekkja til til að segja álit sitt á henni þannig að við getum tekið tillit til sjónarmiða þeirra sem best þekkja til. Við þurfum að fara yfir stefnuna með hliðsjón af þeirri tillögu sem við í Samfylkingunni höfum lagt fram um stefnumótun í málefnum innflytjenda sem liggur fyrir félagsmálanefnd. Ástæða hefði verið til að sú tillaga fengi eðlilega þinglega meðferð í félagsmálanefnd, sem hún hefur ekki fengið. Ég vil óska eftir því við formann nefndarinnar að á þeim tíma sem eftir lifir af þessu þingi og á þeim nefndadögum — ekki nefndadögum, þeir eru víst liðnir samkvæmt verkefnaskrá þingsins. En ef haldnir verða fundir í félagsmálanefnd, sem ég geri ráð fyrir að verði, vil ég óska eftir því að sú stefna sem við höfum lagt fram verði skoðuð.

Mér skilst að það sé sem sagt niðurstaða ríkisstjórnarinnar að leggja ekki þessa stefnu fyrir þingið. Mér finnst það fullkomið virðingarleysi við þingið að setja slíka stefnumótun ekki fram þannig að þingið geti haft áhrif á hana. Ég mótmæli því að vinnubrögðin skuli vera með þessum hætti. Það er stórt mál, virðulegi forseti, sem hér er á ferðinni, stefnumótun í málefnum innflytjenda. Það markar þann ramma sem við ætlum að setja okkur varðandi aðlögun innflytjenda í íslensku samfélagi. Auðvitað á að gera framkvæmdaáætlun á grundvelli slíkrar stefnu sem þingið á að samþykkja. Ég veit ekki hvort hv. formaður félagsmálanefndar þekkir til þess hvort hugmyndir séu um að móta slíka framkvæmdaáætlun og leggja fyrir þingið en það breytir engu, virðulegi forseti, úr því að þingið er að fara heim. Þegar ný ríkisstjórn tekur við mun hún örugglega skoða þessi mál og móta þá framkvæmdaáætlun á grundvelli skýrrar stefnumörkunar um málið, stefnumörkunar sem skilar árangri. Framkvæmdaáætlun sem við getum vænst að skili okkur þeim markmiðum sem við viljum setja okkur, að búa sem best að þeim sem vilja koma hingað og vinna hvort sem er til skemmri eða lengri tíma.

Virðulegi forseti. Ég ætla í lokin að vitna í svar sem ég fékk frá félagsmálaráðherra um erlenda ríkisborgara á vinnumarkaði. Ég taldi nauðsynlegt að fá dregna upp mynd af því hvernig vinnumarkaðurinn lítur út með þeim erlendu ríkisborgurum sem hér vinna. Því miður er takmörkun að því er varðar statistík, að því er varðar vinnumarkaðinn og marga fleiri þætti í stjórnsýslunni og það er náttúrlega kapítuli út af fyrir sig sem ég ætla ekki að ræða hér. En í svarinu kemur þó ýmislegt athyglisvert fram sem ég ætla að vitna til, virðulegi forseti.

Um erlenda ríkisborgara á vinnumarkaði segir að áætla megi að 17.400 erlendir ríkisborgarar hafi starfað á íslenska vinnumarkaðinum á sl. ári og áætlað er að af þeim muni 13–15 þúsund verða starfandi á Íslandi á þessu ári. Á árinu 2008 er gert ráð fyrir að milli 10 og 12 þúsund verði enn starfandi hér á landi. Í svarinu kemur einnig fram að áætla megi að álíka margir erlendir ríkisborgarar hefðu verið á vinnumarkaðinum þó að aðlögunarfrestur um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins hefði verið nýttur til 1. maí 2009. Erlendir ríkisborgarar hefðu komið á vinnumarkaðinn fyrir milligöngu starfsmannaleigna. Þetta er athyglisvert álit sem ég tel að sá eini frjálslyndi sem hér situr í salnum, hv. þm. Valdimar L. Friðriksson, ætti að hlusta á.

Það er álit félagsmálaráðuneytis að jafnvel þó að aðlögunarfresturinn — hin frjálsa för var samþykkt 1. maí — hefði verið nýttur fram til 2009 hefðu jafnmargir erlendir starfsmenn komið hingað til að vinna en þá hefðu þeir bara komið í gegnum erlendu starfsmannaleigurnar en ekki í gegnum beint ráðningarsamband við atvinnurekendur. Það er einmitt í gegnum starfsmannaleigurnar sem undirboðin hafa farið fram. Ég tel að það sé ekki rétt sem frjálslyndir hafa verið að setja fram að það hefði skipt sköpum að nýta ekki þessa aðlögun. Erlenda vinnuaflið hefði komið inn með öðrum hætti, þ.e. í gegnum starfsmannaleigurnar og þar hafa undirboðin fyrst og fremst viðgengist. Þetta var raunverulega staðfest í umfjöllun okkar í félagsmálanefnd af þeim sem þar komu að. Þar voru allir á þeirri skoðun sem um það voru spurðir að þessi hefði orðið niðurstaðan ef við hefðum nýtt okkur aðlögunarfrestinn fram til ársins 2009. Hingað kom erlent starfsfólk vegna þess að hér var þörf á erlendu vinnuafli, hér var ekki atvinnuleysi heldur kallaði vinnumarkaðurinn á fleiri vinnandi hendur. Það breytti því þó að með opnuninni 1. maí var komið á beinu ráðningarsambandi á milli launamanns og atvinnurekanda sem tryggir miklu betur eftirlit með því að ekki viðgangist undirboð í launum og kjörum.

Það kom líka fram í svari Vinnumálastofnunar og ráðherrans að ætla megi að 50–70% starfsmanna starfsmannaleigna hafi fengið leiðréttingu á launum árið 2006 sem sýnir hve mikið hefur verið brotið á réttindum erlendra starfsmanna í gegnum starfsmannaleigurnar. Það kom jafnframt fram að tilhneigingar hafi gætt hjá einstökum fyrirtækjum til að nota starfsmannaleigur sem leið til að komast hjá því að greiða laun samkvæmt íslenskum kjarasamningum. Ég held að það sé mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að halda þessu til haga þegar við erum að ræða frumvarpið sem vonandi nær því markmiði sem að er stefnt, að styrkja allar vinnumarkaðsaðgerðir og treysta betur kjör erlendra starfsmanna. Um leið erum við að tryggja kjör, réttindi og starfsöryggi innlends vinnuafls.