133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[14:33]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka formanni félagsmálanefndar svörin. Mér finnst ágætt að fá það fram að hún deilir áhyggjum mínum af því að ekki sé tryggt nægilegt fjármagn til þess að hægt sé að framfylgja ákvæðum þessara laga og hafa fullt eftirlit með framkvæmd þeirra. Það er alveg rétt að við gátum þess í fjárlagavinnunni. Við verðum þá að treysta því að vilji sé fyrir því í þinginu að bæta úr ef þetta kemur í ljós. Þessi löggjöf er ákaflega mikilvæg og það skiptir miklu máli að til sé fjármagn til þess að fylgja henni eftir.

Ég tók eftir að hv. þingmaður svaraði ekki því sem ég nefndi varðandi Tryggingastofnun ríkisins. Ég vona að hún geri það í næsta svari sínu. Eins og ég las upp og fór yfir eru það ekki síst þau réttindi sem á að tryggja erlendu fólki í gegnum Tryggingastofnun ríkisins sem eru afar mikilvæg og sem Alþjóðahús benti sérstaklega á. Við verðum að búa þannig um hnútana í löggjöfinni að þeir hnökrar sem Tryggingastofnun bendir á verði því ekki til fyrirstöðu að þetta erlenda starfsfólk haldi réttindum sínum.

Síðan vil ég spyrja um skoðun hv. þingmanns á því máli sem ég hef verulegar áhyggjur af, þ.e. stefnunni í málefnum innflytjenda, að það skuli ekki koma til þinglegrar meðferðar. Ég hlýt að treysta því að hv. þingmaður taki málið upp í félagsmálanefnd. Það liggur fyrir mál frá okkur í Samfylkingunni sem ég hefði viljað ræða og fá inn á þingið og hefði átt að ræða það í samfloti með stefnu ríkisstjórnarinnar. En svo virðist sem ríkisstjórnin ætli að hunsa það að þingið fái það mál til þinglegrar meðferðar.