133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[15:36]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alls ekki hægt að láta sem vind um eyrun þjóta þær aðdróttanir sem hv. þingmaður var með hér í ræðustól í garð fjölmiðla. Hv. þingmaður sagði að það að fjölmiðlar fjölluðu ekki meira um erlent vinnuafl væri því að kenna að það hentaði ekki eigendum fjölmiðla eða fjármagnseigendum landsins að fjalla um þessi mál. Hvað er hv. þingmaður að segja? Er hv. þingmaður að segja að eigendur fjölmiðla segi blaðamönnum og ritstjórn fjölmiðla fyrir verkum? Á hv. þingmaður við það? Mér finnst það mjög óviðeigandi að hv. þingmaður segi að eigendur fjölmiðla skipi ritstjórnum og blaðamönnum fyrir verkum, að þeir skuli ekki fjalla um erlent vinnuafl hér á landi.

Hv. þingmaður talaði um mikinn fjölda erlends vinnuafls og vitnaði í umsögn Starfsgreinafélags Austurlands. Hann vitnaði að vísu ekki í aðrar umsagnir um þetta frumvarp, umsagnir sem eru jákvæðar eins og frá ASÍ, og um umsögn Alþjóðahúss fjallaði hann alls ekki. Ég fjallaði um umsögn verkalýðsfélagsins á Austurlandi eins og hann gerði. Er ekki svo, virðulegi forseti, að í þeirri umsögn var að verulegu leyti fjallað um starfsmannaleigur og erlent vinnuafl sem kemur hingað á vegum starfsmannaleigna? Það er það að verulegu leyti. Það kom fram á fundi nefndarinnar hjá ASÍ og hefur komið fram í skriflegu svari hæstv. félagsmálaráðherra til mín að áætla megi að álíka margir erlendir ríkisborgarar hefðu verið á vinnumarkaðnum og raunin hefur orðið á þrátt fyrir að aðlögunarfresturinn um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins hefði verið nýttur til 1. maí 2009. Erlendir ríkisborgarar hefðu þá komið á vinnumarkaðinn fyrir milligöngu starfsmannaleigna.