133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

vegalög.

437. mál
[19:45]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið við umræðu í þinginu er þetta frumvarp gott um margt. Þrjár greinar frumvarpsins, 4., 14. og 17. gr., hafa hins vegar verið gagnrýndar. Nú hefur verið gerð breyting á alvarlegustu greininni, 4. gr. Þar hefur verið numið brott ákvæði sem hefði lögþvingað Vegagerð ríkisins til að einkavæða alla hönnun, allar nýbyggingar, allt viðhald, alla þjónustu, allt eftirlit. (Gripið fram í: Einkavæða vegina.) Og að einkavæða vegina, það er rétt, því að í frumvarpinu var ákvæði þess efnis að vegamálastjóri hefði heimild til að framselja vegina, þjóðvegina, til einkaaðila til frambúðar. Nú hefur verið komið með tillögu eða breytingu á frumvarpinu þess efnis að einvörðungu sé um að ræða tímabundna ráðstöfun. Þessu náðum við fram, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, að fá fram þessar breytingar á frumvarpinu og ég lít svo á að þær séu mjög mikilvægar því að það hefði haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir Vegagerðina og þjónustu Vegagerðarinnar vítt og breitt um landið ef löggjafinn hefði þvingað Vegagerðina til að bjóða út nánast alla starfsemi sína. Hér var ekki um að ræða heimildarákvæði heldur lögþvingun af hálfu löggjafans. Ég fagna því að ríkisstjórnin skuli hafa verið reiðubúin til að taka upp viðræður um breytingar á þessu frumvarpi. Ég tel þær ásættanlegar og við styðjum þess vegna frumvarpið í heild sinni.