134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

13. mál
[16:49]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður spyr: Hversu miklum fjármunum höfum við séð af í áratug með skattaívilnunum til erlendra fyrirtækja? Það er svo skemmtilegt að þegar skattar á fyrirtæki voru lækkaðir og öll helsi af þeim tekin blómstruðu skattstofnarnir þannig að tekjur ríkissjóðs stórjukust. Svo getur maður rætt um það endalaust og deilt hvort það sé skattahækkun eða skattalækkun.

Tekjur ríkisins hafa sannanlega stóraukist. Ef við hefðum veitt íslenskum fyrirtækjum þessar sömu skattaívilnanir síðasta áratug hefði ríkissjóður verið miklu betur settur. Við höfum ekki séð af neinum fjármunum, við sjáum hins vegar af fjármunum frá íslenskum fyrirtækjum með því að ofskatta þau. Nákvæmlega eins og þegar hrossið er hlaðið svo mikið að það skjögrar undan byrðinni og kemst ekkert áfram. Þetta er ekki til skammar.

Síðan vitnaði hv. þingmaður í Indriða H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóra, um að virðisaukinn væri sáralítill. Ég vil bara benda á að eigið fé Landsvirkjunar er 60–70 milljarðar og er komið af engu. Það hefur aldrei verið lögð króna að heitið geti í það góða fyrirtæki. Allt eru þetta bara virkjanir og raforkusala, allt eigið fé. Og það á eftir að vaxa enn frekar eftir að Hálslón kemst í gagnið.

Svo segir hún að við höfum fengið orkulindirnar og séum að sóa þeim. Við hefðum einmitt sóað þeim með því að nota þær ekki. Eftir að Jökla fór að vinna fyrir okkur í september sl. fer hún að gefa arð. Þangað til gaf hún engan arð. Hún rann bara út í sjó. Það var ekki einu sinni uppsöfnun. Vatnið bara hvarf. Það er skylda okkar að nýta þessar auðlindir svo fremi sem við göngum ekki of nærri náttúrunni.