134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

6. mál
[18:57]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í mínum huga er það alveg ljóst að stjórnsýsla er ekki afturvirk. Það er ekki þannig í vönduðum lýðræðisríkjum að hægt sé að hlaupa fram og til baka í tímanum. Þeir gerðu þetta svolítið hér austar í heiminum um tíma en við gerum slíkt ekki á Íslandi í dag. Þar af leiðandi eru þau leyfi sem veitt hafa verið, þær ákvarðanir sem teknar hafa verið, ekki afturkræf nema ef einhverjar sérstakar aðstæður komi til.

Ég vil aðeins koma inn á það sem hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir sagði. Það er auðvitað ekkert náttúrulögmál að ráðast í virkjanir í neðri hluta Þjórsár og ég tel það slæmt. Ég tel það að mörgu leyti slæmt og sér í lagi efsta virkjunin, en ég tel aftur á móti að leiðin til að komast hjá því sé ekki fær í dag. Ég sé ekki hvar hún er. Og þegar vitnað er til þess að þetta sé í andstöðu við vilja heimamanna, þá er það auðvitað svo að það er mikill minni hluti heimamanna á þessu svæði sem er á móti þessum framkvæmdum. Það er meira að segja svo að áform fráfarandi umhverfisráðherra, Jónínu Bjartmarz, um stækkun friðlandsins og um ákveðna verndun í Þjórsárverum strandaði á vilja heimamanna.

Það er engin einstefna í þessu máli og ég mótmæli algjörlega þeim orðum hv. þm. Helga Hjörvars áðan að fyrri ríkisstjórn hafi keyrt út í eitt á virkjanaframkvæmdum en núverandi ríkisstjórn ætli sér þar mildari stefnu. Tilfellið er að núverandi ríkisstjórn hefur tekið upp merkið þar sem hv. iðnaðarráðherra á þeim tíma, (Forseti hringir.) Jón Sigurðsson, rétti þeim það og litlu við bætt.

(Forseti (StB): Forseti vill minna hv. þingmenn á að veita andsvar við þann ræðumann sem var að tala síðastur en ekki við þann sem talaði fyrr á fundinum.)