134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

6. mál
[19:18]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að koma upp vegna orða hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur um að það væri hægur vandi að stöðva virkjanir í neðri hluta Þjórsár og áskorunar á mig að ég skyldi koma henni til liðs í þeirri baráttu.

Ef hún getur bent mér á raunhæfar leiðir í þeirri baráttu skal ég íhuga það. Ég get ekki séð að þær séu fyrir hendi. Það gæti svo sem breyst ef Vinstri hreyfingin – grænt framboð næði hér einhvern tímann meiri hluta í fylgi, þá gæti vel verið að hér yrði önnur veröld. Ég held að sú veröld verði líka svolítið fyrirkvíðanleg í mínum huga.

Það vill svo til að ég treysti þeirri ágætu hreyfingu ekkert allt of vel þegar kemur að þessum virkjunum. Þar hefur þessi hreyfing mjög talað tungum tveim. Ég hef sjálfur verið á móti þeim hugmyndum að færa vatnsaflsvirkjanir niður í byggð. Ég er talsmaður þess að vatnsaflsvirkjanir taki yfir takmörkuð svæði á hálendinu en að sveitum sé ekki sökkt á kaf. Þar eru miklar menningarminjar og þar eru búsvæði sem hverfa og þess vegna hefur afstaða mín til virkjana í neðri hluta Þjórsár alltaf verið skýr. Hún hefur alltaf verið eins. Það er meira en hægt er að segja um afstöðu ykkar flokks þar sem formaður flokksins lauk á sínum tíma miklu lofsorði á þennan virkjanakost.

Ég held að það sé miklu vænlegra og þess vegna skora ég á hv. þingmann og Vinstri hreyfinguna – grænt framboð, alla þá hreyfingu, að koma mér til liðs í því að við náum að lækka lónhæð efsta lónsins í virkjununum í neðri hluta Þjórsár. Það er raunhæft markmið (Forseti hringir.) og það eru raunhæf markmið sem raunhæfir menn setja fram.