135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[11:14]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega mikið sagt þegar fyrrverandi landbúnaðarráðherra ber mér á brýn sem forsætisráðherra og þeim manni sem ábyrgð ber á Stjórnarráði Íslands og umgjörðinni utan um það (Gripið fram í.) að ég sé hér að fremja skemmdarverk. Mér þykir hv. þingmaður taka myndarlega upp í sig þegar hann ber forsætisráðherranum það á brýn að gera skemmdarverk á Stjórnarráði Íslands sem er á ábyrgð forsætisráðherrans. Auðvitað tekur svona málflutningur engu tali. Það tekur engu tali að segja svona hér þó að hv. þingmanni sé (Gripið fram í.) mikið niðri fyrir.

Ég ætla að leyfa mér að lesa upp úr ræðu minni frá því áðan hvað varðar skógarbændur, með leyfi forseta:

„Samkomulag er á milli viðkomandi ráðuneyta um að fjármunir til verkefnisins Bændur græða landið, sem ætlaðir eru til uppgræðslu á heimajörðum bænda og eru nú á fjárlagalið Landgræðslunnar verði á forræði og fjárlagalið sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis. (BjH: Það er ekki sama og skógrækt.) Ráðuneytið mun gera samning til þriggja ára um að Landgræðslan annist framkvæmd og eftirlit með þeim verkefnum á sama hátt og stofnunin hefur gert til þessa.“

Ég vék hér einnig að öðrum samningum og fleiri þáttum sem varða þessar stofnanir sem hv. þingmaður ber fyrir brjósti og ég tel að það hafi verið komið með eðlilegum hætti til móts við þau sjónarmið sem hann er að minnsta kosti að hluta til fulltrúi fyrir og um þetta hefur verið haft samráð við Bændasamtökin.

Það þýðir ekkert að standa hér í ræðustól Alþingis og segja: „Það má engu breyta. Það má aldrei neinu breyta.“ Þar með er Framsóknarflokkurinn náttúrlega kominn í sinn gamla búning.