135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[11:16]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil vekja athygli á því að þegar þetta stórmál kemur hér á dagskrá, sem eru gríðarlegar breytingar innbyrðis á Stjórnarráðinu og ómarkvissar, þá halda fagráðherrarnir að þeir þurfi ekki að vera við umræðuna. Nú er ég fyrstur á mælendaskrá í þessu stóra máli og hvar er maðurinn sem heitir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra? Ég geri kröfu um það, hæstv. forseti, að í svo stóru máli sem hér er á dagskrá verði fagráðherrarnir við. Ég geri fulla kröfu til þess. Þetta sýnir hvernig menn ætla að misnota vald sitt í stórum þingmeirihluta og hlusta ekki á stjórnarandstöðu sem er fámenn, að menn telja sig ekki einu sinni þurfa að vera við þessa umræðu.

Hæstv. forsætisráðherra getur vitað það hér, og mér þykir vænt um hann og hef átt gott samstarf við hann, að okkar framsýnu sjónarmið í Framsóknarflokknum eru þau, eins og þau hafa verið, að atvinnuvegaráðuneyti með þau verkefni sem því tilheyra verður að lifa í gegnum þetta. Hér er því miður, hæstv. forsætisráðherra, og ég kem að því í ræðu minni á eftir, verið að færa til verkefni sem eiga að vera hjá atvinnuvegaráðuneyti en ekki hjá heilbrigðisráðuneytinu. En ég fer skýrt fram á það, hæstv. forseti, að þessari umræðu verði frestað þar til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verður viðstaddur ræðu mína, ég þarf að spyrja hann spurninga og geri því kröfu um það, og mér finnst þetta mikil lítilsvirðing. Ég treysti hæstv. forseta til þess að vera forseti alls þingsins og kaus hann til þess þó að ég sé ekki í hans liði og styðji ekki ríkisstjórn hans, hann er forseti alls þingheims og ég geri kröfu til þess að sú lýðræðislega umræða sem hér þarf að fara fram um þetta mál verði með þeim hætti að hæstv. ráðherrar sýni sóma sinn í því að vera viðstaddir hana. Þetta snýr að svo mörgum málum sem skipta miklu máli. Við þurfum að spyrja og fara yfir stöðuna við 1. umr.