135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

uppkaup á jörðum og verndun landbúnaðarlands.

[14:04]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Auðvitað vill enginn sjá einhverja ofursamþjöppun, hvorki í landbúnaði né jarðeignum í landinu. Það er enginn að tala um það, það talar enginn fyrir því að við viljum sjá einhverja slíka þróun. Það er heldur ekki þannig að sú þróun hafi átt sér stað upp á síðkastið, það er ekki hægt að sýna fram á það.

Ef við skoðum þessar tölur almennilega sjáum við að langmestur hluti landsins er í eigu einstaklinga. Sú þróun sem menn reyna að draga hér upp mynd af, sem sé sú að landið sé orðið meira og minna í eigu örfárra auðmanna, er ekki rétt. Við verðum hins vegar að horfast í augu við þá staðreynd að miklar breytingar hafa orðið í íslenskum landbúnaði, t.d. hefur búum fækkað bæði í sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu og auðvitað hefur það einhverjar afleiðingar í för með sér.

Þegar hv. þm. Jón Bjarnason talar um að síðan eigi að leggja kvaðir á menn í þessum efnum — hvað er hv. þingmaður að tala um? Hvað á að gera þar sem ekki er lengur stundaður kúabúskapur eða sauðfjárbúskapur? Á að skikka menn til að halda þessum búskap þarna áfram? Auðvitað ekki. Þessi þróun sem felur í sér samþjöppun — sem felur það í sér að búin eru að stækka vegna þess að í því felst hagræði, vegna þess að tæknibreytingar gera mönnum það kleift — það er þróun sem við viljum ekki stöðva. Við viljum ekki koma í veg fyrir að menn geti framleitt hér landbúnaðarvörur á lægra verði en gert hefur verið.

Fyrir fáeinum árum voru fluttar tillögur á Alþingi sem m.a. miðuðu að því að reyna að færa sauðfjárræktina fjær þéttbýlinu. Fyrir því voru færð alls konar byggðaleg rök. Nú kemur fram í athugun sem fór fram á vegum Háskólans á Bifröst að nákvæmlega þessi þróun er að verða og hún er á margan hátt mjög æskileg.

Landbúnaðurinn okkar er öðruvísi en landbúnaður margra annarra þjóða. Við búum í dreifbýlu landi með mörgum jörðum og landbúnaður okkar annar innlendri eftirspurn. Lagaumhverfið í Danmörku, því þéttbýla landi þar sem hver lófastór blettur er manngerður, er við aðstæður sem við getum ekki borið okkur saman við. Við eigum ekki að sækja okkur fyrirmyndir til landa þar sem aðstæðurnar eru allt öðruvísi en hjá okkur á Íslandi.