135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[20:40]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður er svo málsnjall að hann þarf ekki, líkt og mesti ræðuskörungur hinnar fornu Rómar, Cíceró, að æfa sig með því tala í kapp við hafölduna. En um hann gildir, eins og alla góða ræðumenn, jafnvel hv. þm. Steingrím J. Sigfússon sem situr að baki hv. þingmönnum, hið sama og sagt var um Cíceró þegar honum elnaði nokkuð aldur, að því betri urðu ræður þeirra sem þær styttust.

Ég hef tekið þátt í því síðustu 12 árin með hv. þingmanni að etja hér kappi við ríkisstjórnina margoft með löngum ræðum og ég verð að segja það um sjálfan mig og þá menn tvo sem eru í beinni sjónlínu við mig, hv. þingmenn Ögmund Jónasson og Steingrím J. Sigfússon, að bestu ræður okkar hafa jafnan verið þær sem stuttar eru og snjallyrtar, það gildir að minnsta kosti um þá báða. Ég segi þetta ekki, frú forseti, vegna þess að ég sé einhver sérstakur ákafamaður um þetta frumvarp, ég tel að skoða þurfi ákaflega vel þær takmarkanir á tíma sem þarna eru settar.

Ég kem aðeins hingað til að verja hæstv. forseta Sturlu Böðvarsson. Ég er ósammála hv. þingmanni þegar hann talar um verslun og viðskipti þegar um er að ræða annars vegar þessar takmarkanir sem hér er verið að leggja til og hins vegar ákveðnar bætur á stöðu stjórnarandstöðunnar. Ef stjórnarandstaðan telur að það sé verið skerða hlut sinn finnst mér réttlátt og sanngjarnt af hæstv. forseta að hafa forgöngu um að gera síðbúnar bætur á aðstöðu stjórnarandstöðunnar. Ég tel fullkomlega réttlætanlegt að gera þær bætur þótt deila megi um einstakar þeirra, eins og hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni. Ég tel algjörlega rökrétt að taka þetta tvennt saman. Ég tel að til þess að stjórnarandstaðan geti sinnt starfi sínu þurfi að stórbæta aðstöðu hennar (Forseti hringir.) og ég hef alltaf verið talsmaður þess, enda töluvert ríkur að reynslu úr stjórnarandstöðu.