135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[20:42]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst og fremst víkja að þeim ásökunum okkar um að hér hafi farið fram verslun og viðskipti. Ég er einfaldlega að vísa í það sem kom frá hæstv. forseta þingsins. Þegar við óskuðum eftir að skýr greinarmunur yrði gerður á tillögum sem fram kæmu um að bæta stöðu þingsins, stjórnarandstöðunnar og alla aðstöðu manna þar, ég vék að utanferðum, aðstoðarmönnum og öðru af því tagi, þá sagði hæstv. forseti að það væru órjúfanleg tengsl á milli þess að stjórnarmeirihlutinn féllist á þessar breytingar og svo hins að við féllumst á að stytta ræðutímann og veikja þau vopn sem við höfum í þessum þingsal til að veita stjórnarmeirihlutanum, ríkisstjórn og þeim meiri hluta sem hún styðst við hverju sinn, aðhald.

Það var þetta sem ég kallaði verslun og viðskipti. Þetta eru að mínu mati óeðlileg tengsl, þetta er óeðlileg tenging, en hæstv. forseti Sturla Böðvarsson sagði að þarna væru órjúfanleg bönd á milli. Með öðrum orðum: ef þið fallist ekki á að veikja stöðu ykkar innan þingsins, hér í þingsalnum, með því m.a. að stytta stórlega ræðutímann, verður ekki fallist á að bæta stöðu ykkar sem stjórnarandstöðu og þingmanna á Alþingi.