135. löggjafarþing — 35. fundur,  4. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[00:08]
Hlusta

Flm. (Sturla Böðvarsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil í lok þessarar umræðu þakka hv. þingmönnum fyrir ágætar umræður og í langflestum atriðum mjög málefnalegar og tel að þessi 1. umr. hafi verið mjög gagnleg fyrir framhald málsins.

Umfram allt þakka ég fyrir að samkomulag skyldi nást um þessa umræðu sem sýnir að á Alþingi er hægt, þegar menn leggjast á eitt, að ná skynsamlegri niðurstöðu. Hér hefur eins og við var að búast margt komið fram og afstaða hv. þingmanna er skýr. Annars vegar kemur fram hjá hv. flutningsmönnum þessa frumvarps ríkur vilji til að ná fram mikilvægum breytingum á þingsköpum. Hins vegar hafa þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gert miklar athugasemdir og leggjast gegn frumvarpinu. Hins vegar vakti athygli mína afar merkileg ræða sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson flutti í lokin þar sem hann kom fram með athugasemdir, fyrirspurnir og ábendingar sem ég tel gagnlegt að fá fram og teldi að af hálfu þingmanna Vinstri grænna hefðu þurft að koma fram fyrr.

Einhverra hluta vegna kemur þetta fram núna. Mér sýnist það benda til að það geti lofað góðu að því leyti að í meðförum þingsins og í nefndinni kunni að vera meiri stuðningur af hálfu vinstri grænna við málið en við höfðum kannski gert ráð fyrir.

Ég ætla ekki að fara ofan í einstök atriði í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Hún olli mér miklum vonbrigðum. Ég verð að segja það eins og það er. Sú ræða hlýtur að vekja þær spurningar hjá mér um hversu mikil alvara hafi verið af hálfu hv. þingmanns gagnvart þessu máli. Hvað um það? Ræða hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar bendir til að ef til vill sé nokkur vilji til þess af hálfu þeirra þingmanna sem þar eru á ferðinni að ná góðri niðurstöðu og samstöðu með okkur.

Umræðan hefur verið gagnleg og mikilvæg. Ég tel t.d., líkt og komið hefur fram, að við þurfum að skipuleggja þinghaldið betur. Það er hárrétt og ég tek undir það. Frumvarpið er til þess gert. Ég er hins vegar algerlega ósammála því að frumvarpið veiki stöðu þingsins. Ég tel að það sé af og frá. Þau spor sem við stígum með frumvarpinu eru einmitt til að styrkja stöðu þingsins. Ég tel jafnframt að þær ábendingar sem hafa komið fram um ræðutíma segi okkur að það skipti miklu máli hvernig fyrstu skrefin verða hjá okkur, að breyttum lögum. Sú ábyrgð er lögð á herðar forseta, að ná góðu samkomulagi, ná niðurstöðu um ræðutíma sem víkur frá meginreglum á grundvelli þeirrar heimildar sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Ég tel afar mikilvægt að við gerum ráð fyrir því að t.d. í umræðum um fjárlög, í umræðu um samgönguáætlun eða önnur slík mál, að það verði lengri ræðutími en ýtrasti rammi gerir ráð fyrir. Þess vegna eru þessar heimildir inni, heimildir um lengri tíma á grundvelli þess að forseti taki þá ákvörðun.

Ég tel t.d. hvað varðar fjárlagaumræðuna að eðlilegt væri að fjárlaganefndin færi yfir þau mál og að til forsætisnefndar og formanna þingflokkanna kæmu tillögur frá t.d. fjárlaganefnd um hvernig umræðum verði háttað um fjárlög. Það mættu koma tillögur um heildarumræðutíma o.s.frv. Þetta eru allt atriði sem við þurfum að þróa í þeim tilgangi að tryggja lýðræðislegar umræður og tryggja að rökræður fari fram, eins og við hljótum að gera kröfur um.

Að öðru leyti ætla ég ekki að lengja þessar umræður í kvöld. Ég þakka fyrir þær og tel að næsta skref sé að vinna vel í nefnd að málinu og leitast við að ná fullkominni sátt um það. Mér sýnist margt benda til þess að hægt sé að ná um málið sátt eftir þær umræður sem ég hef hlýtt á, ekki síst eftir að hafa hlustað á ræðu hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar.