135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[16:32]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp er tvíþætt. Annars vegar er um flutning málefna aldraðra yfir til félagsmálaráðuneytisins, annarra en heilbrigðisþjónustu. Það breytist því lítið gagnvart heilbrigðisþjónustunni.

Það var ljóst í umræðunni í nefndinni og ekki síst hjá gestum nefndarinnar og umsagnaraðilum að þeir voru mjög ánægðir með þessa breytingu. Við sáum ekkert því til fyrirstöðu að gera slíka breytingu um áramótin enda lægju fjárlög fyrir og til þess gæfist tími á næsta ári að skoða hvernig þessum málum yrði háttað fyrir næstu fjárlagagerð, skoða skiptingu fjármagns og slíkt, aðgreiningu á heilbrigðisþjónustunni annars vegar og öðrum þáttum innan öldrunarþjónustu hins vegar.

Hinn þátturinn varðar það að setja á laggirnar stofnun sem sjái um kaup, samninga og greiðslur vegna heilbrigðisþjónustu. Eins og hv. þingmanni er kunnugt mun slík stofnun taka til starfa 1. september á næsta ári. Þegar við ræddum við fulltrúa Tryggingastofnunar ríkisins var ljóst að þeir eru þegar farnir að undirbúa þá skiptingu, uppskiptingu á starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins. Þeir sáu fá grá svæði þar á milli þótt það geti orðið flókið í framkvæmd vegna þess að nota á sama tölvukerfi og ekki alveg niðurstaða í því hvernig þau mál verði leyst. Það er hins vegar vel hægt að standa við þetta. Þegar hefur farið fram mikil vinna gegnum árin innan Tryggingastofnunar um kaup á heilbrigðisþjónustu þannig að þetta er útfærsla, ákveðin útvíkkun, á því hlutverki stofnunarinnar sem verður fært til nýrrar stofnunar og ákveðnir starfsmenn fylgja með starfseminni. Þannig er ekkert því til fyrirstöðu.