135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[16:43]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið í málflutningi þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sjáum við margt ágætt í þeim hugmyndum sem teflt er fram í þessu frumvarpi. En við vörum við óðagoti og hvetjum til að menn gefi sér góðan tíma til undirbúnings. Þótt tilteknir málaflokkar heyri undir ákveðin ráðuneyti er ekki þar með sagt að stofnanir geti annast vinnslu á verkefnum fyrir fleiri en eitt ráðuneyti.

Hæstv. forseti. Við leggjum áherslu á að þessari lagasmíð verði frestað eða samþykkt hennar og ef ekki næst samstaða um frestun verði reynt að tína út úr frumvarpinu það sem mest ósamkomulag er um. Þar staðnæmist ég sérstaklega við 18. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um hina nýju sölumiðstöð sjúklinga sem ég vék að áðan. Í henni er kveðið á um sérstaka stofnun sem komið verði á laggirnar sem hafi það hlutverk að annast kaup, greiðslur og samninga um heilbrigðisþjónustu og framkvæmd þeirra málaflokka almannatrygginga sem heyra undir heilbrigðisráðherra, eins og hér segir. Síðan er vísað í að ráðherrar ráði framkvæmdastjóra, skipi stjórn og þar fram eftir götunum.

Í greinargerð með þessari grein segir eitthvað á þá leið að gert sé ráð fyrir að nánar verði kveðið á um skipulag og hlutverk þessarar stofnunar í sérstöku frumvarpi sem lagt verður fram á vorþingi árið 2008.

Hæstv. forseti. Er ekki eðlilegt að Alþingi fái þessar hugmyndir til umfjöllunar? Þegar allt kemur til alls (Forseti hringir.) erum við að fjalla um grundvallarbreytingar á skipulagi heilbrigðisþjónustunnar og þær breytingar eiga að komast til ákvörðunar á Alþingi áður en þær eru endanlega afgreiddar.