135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[16:59]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvernig þau líta út handjárnin í Framsóknarflokknum en þau eru klárlega til staðar þar fyrst hv. þingmanni verður svo tíðrætt um þau. Ég ítreka að þau eru ekki til staðar í okkar flokki.

Varðandi það hvort ég ætli að reyna að koma vitinu fyrir Sjálfstæðisflokkinn … (GÁ: Það er engin leið.) Jú, en það þarf ekki vegna þess að í Sjálfstæðisflokknum er staðan þannig, held ég, að við höfum ágæta vísitölu þegar kemur að vitmælingum. Stefna okkar var a.m.k. mjög vel seljanleg í síðustu kosningum. Auðvitað er Sjálfstæðisflokkurinn breiðfylking. Það sýnir hið mikla fylgi sem hann hefur. Ég hvet þingmanninn til þess að horfa í eigin rann. Kannski hann þurfi að fara að taka burt hin margumtöluðu handjárn og sjá hvort rætist úr gengi flokks hans.

Ég hef sagt mína skoðun á þessum málaflokki. Ég er ósáttur við tilflutning þessara tilgreindu málaflokka í frumvarpinu og hef ekki verið heftur í að koma þeim skoðunum mínum á framfæri. Ég hef gert það hér … (GÁ: Þú átt marga bræður og systur í þessu.) Ég á örugglega skoðanabræður víða í flokknum, já. Ég hef fengið, hv. þingmaður, margar hringingar og pósta þar sem þetta mál hefur verið til umræðu. Um þessi mál eru örugglega skiptar skoðanir innan Sjálfstæðisflokksins eins og víðast hvar í samfélaginu, líkt og er um mörg málefni.