135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[10:53]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Meiri hluti allsherjarnefndar leggur til að þetta mál verði samþykkt hér við 2. umr. með allnokkrum breytingum sem hafa verið kynntar á sérstöku þingskjali. Meiri hluti allsherjarnefndar mótmælir harðlega þeim fullyrðingum sem koma fram við þessa umræðu af hálfu talsmanna stjórnarandstöðunnar og koma fram í nefndaráliti þeirra um að málið sé illa unnið eða flausturslegt eins og gefið hefur verið í skyn.

Hér er um að ræða ákveðna tilfærslu verkefna, fyrst og fremst milli ráðuneyta, einnig tilfærslu milli stofnana eftir því sem ráðuneytabreytingin kveður á um. Þetta frumvarp er flutt í kjölfar breytinga sem voru gerðar á Stjórnarráðinu í sumar. Það er verið að gera nauðsynlegar lagabreytingar til að staðfesta þá stefnu sem þar var mörkuð og við í meiri hluta allsherjarnefndar teljum að þar sé vel að verki staðið.

Það má auðvitað hafa mismunandi skoðanir á því hvar einstök verkefni eru hýst. Hins vegar er rétt að taka fram að hér er ekki með neinum hætti gengið á verkefni, þau skert, minnkaðar fjárveitingar eða þeim sem starfa á einhverjum sviðum gert erfiðara fyrir, alls ekki. Markmiðið með þessum breytingum er að gera stjórnsýsluna á þessum sviðum skilvirkari, (Gripið fram í.) markvissari, færa verkefni saman og tryggja að þeim fjármunum sem varið er til þessara verkefna sé betur varið. Það er markmiðið með þessu.

Varðandi kostnað sem vikið hefur verið að í máli talsmanna minni hlutans eru í nefndaráliti minni hlutans ævintýralegar tölur um kostnaðinn sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Það liggur fyrir að það verður ákveðinn kostnaður vegna tilflutnings og húsnæðisbreytinga sem er kominn inn í fjárlög þannig að þar eru ekki neinar óvæntar upphæðir. Að öðru leyti eiga fjármunir að fylgja verkefnum þannig að fyrir utan þessar húsnæðisbreytingar á ekki að vera um neinn sérstakan aukakostnað að ræða nema eins og tekið er fram í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytis að ófyrirséður kostnaður er vissulega fyrir hendi vegna þess að það kann að skapast biðlaunaréttur hjá einstökum starfsmönnum. Það er ekki hægt að segja fyrir um það hversu mikill hann verður, það liggur ekki fyrir en hins vegar er ekki um að ræða milljarð eins og fram kemur í nefndaráliti minni hlutans og er algerlega órökstudd fullyrðing út í loftið. (Gripið fram í.)