135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[22:01]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er að mörg leyti að þróast út í mjög skemmtilegar umræður. Margt athyglisvert kom til að mynda fram í ræðu hv. þm. Ellerts B. Schrams þótt mér þætti hann gerast fullalhæfingarsamur á stundum þegar hann talaði um að ásýnd Alþingis væri eins konar ræðukeppni þar sem menn stunduðu skylmingar. Ég held að þetta sé nú kokteill af skylmingum og markvissum, iðulega mjög stuttum málefnalegum umræðum.

Ég vil taka sem dæmi að í dag hefur farið fram 3. umr. um erfðafjárskatt, olíugjald og kílómetragjald, aukatekjur ríkissjóðs, ársreikninga, kjararáð, fjarskipti, greiðslur til foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna, greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks. Við erum að vonast til að fleiri mál verði afgreidd úr nefnd og ég vísa þar sérstaklega til jafnréttisfrumvarps um jafna stöðu karla og kvenna sem hefur verið ákaflega vel unnið í nefnd, sem gildir einnig um hin málin sem ég nefndi. Ekkert þessara mála hefur kallað á langa eða ítarlega umræðu hér í þingsal vegna þess hve vel þau hafa verið unnin í nefnd og stuðlað að því að finna niðurstöðu sem allir geta sætt sig við. Hér eru einnig á dagskrá mjög umdeild mál. Við erum að ræða þingskapalög sem deilur standa um, breytingar á Stjórnarráðinu, breytingar á almannatryggingum, sem hafa kallað á lengri umræður. Við skulum forðast að gerast alhæfingarsöm.

Eins vil ég taka sem dæmi um hve varasamt er að gerast alhæfingarsamur um ræðutíma að þegar þingmál koma inn til 1. umr. gera menn í sumum tilvikum grein fyrir sjónarmiðum sínum á fáeinum mínútum, í öðrum tilvikum taka þeir ekki til máls einfaldlega vegna þess að þeir þekkja takmarkað til málsins, það er ekki fyrr en það er komið til nefndar sem það fær slíka efnislega umfjöllun að menn treysta sér í málefnalega umræðu. Í öðrum tilvikum getur verið gott að fá við 1. umr. allítarlega umfjöllun. Ég nefni umdeilt frumvarp um sölu á áfengi í almennum matvöruverslunum. Mikið var um það rætt hér í þinginu þar sem mjög margir tóku til máls og það gerðist, sem ég tel vera ákjósanlegt í lýðræðisþjóðfélagi, að þing og þjóð fóru að kallast á. Er það ekki gott? Ég tel að slíkt sé heppilegt fyrir þingið, fyrir þjóðina og fyrir málefnið að sjálfsögðu. Ég held því að menn eigi að forðast að gerast mjög alhæfingarsamir.

Þessi umræða í dag og undanfarna daga hefur verið mjög tilfinningaþrungin og hefur einkennst af ásökunum á báða bóga um vafasöm vinnubrögð. Annars vegar er Vinstri hreyfingin – grænt framboð sökuð um þvergirðingshátt, að vera þverplanki í vegi breytinga, og á hinn bóginn höfum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði gagnrýnt meiri hlutann á þingi fyrir að vilja þröngva í gegnum þingið frumvarpi sem við eigum afar erfitt með að sætta okkur við.

Ef við nú gerum eitt, ef við nú reynum að skyggnast í gegnum þessa tilfinningaþoku alla og reynum að eygja það sem sameinar í stað þess sem sundrar, hvað kemur þá í ljós? Þá kemur í ljós að þingmenn eru í reynd að stefna að sameiginlegum markmiðum. Hver eru þau? Því hafa menn marglýst yfir. Jú, það er að bæta lagasmíðina, gera starfið hér markvissara, hafa það sveigjanlegt en jafnframt markvisst, og lýsa með því yfir að þeir vilji styrkja þingið og þá ekki síst stjórnarandstöðuna í þeim stjórnarskrárbundnu skyldum sínum að veita framkvæmdarvaldinu aðhald. Þetta eru yfirlýst markmið allra. Hvers vegna nefni ég þetta? Jú, ef við gefum okkur að hugur fylgi máli þá er líka kominn grundvöllur fyrir sættir og fyrir samkomulag. Það er sú áhersla sem við höfum verið að hamra á hér í dag að við teljum góðar líkur á því að við getum náð samkomulagi og sátt.

Aðeins um ferlið, ekki bara undanfarna daga, vikur, mánuði, lítum til síðustu ára. Alþingi hefur verið að taka miklum breytingum. Eins og fram kemur í greinargerð með þingmáli okkar hefur þróunin heldur verið á þá lund að ræður hafa verið að styttast þegar allt kemur til alls, næturfundir eru ekki eins tíðir og áður var, því fer reyndar fjarri. Tímaáætlanir standast betur en áður gerðist. Jafnframt hefur framkvæmdarvaldið verið að styrkja sig í sessi, stjórnarmeirihlutinn hefur reynst ágengari gagnvart þinginu en áður var. Þetta eru meginþræðirnir í þróuninni.

Hvernig hafa þingskapalögin fylgt þessari þróun? Jú, þau hafa smám saman verið að taka breytingum. Grundvallarbreyting var gerð árið 1991, minni háttar breyting var gerð 1992, aftur 1993. Gerð var tilraun til breytingar, eins og hér var vísað í, árið 1999. Umræður héldu áfram. Síðan voru gerðar breytingar í byrjun þessa árs, 2007, og aftur í tengslum við breytingar á Stjórnarráðinu síðasta vor. Breytingarnar í upphafi þessa árs voru allumfangsmiklar, þó fyrst og fremst tæknilegs eðlis. Það voru breytingar í 33 greinum þar sem verið var að laga þingskapalögin að þeirri þróun sem hafði átt sér stað af fúsum og frjálsum vilja vegna þess að þingið hafði verið að taka breytingum vegna breyttra starfshátta og vegna breytts vilja okkar. Við höfum nefnilega líka verið að breytast.

Mig langar til að segja litla reynslusögu af sjálfum mér, hvernig ég hef verið að breytast. Ég hef iðulega haldið því fram að Alþingi væri einhver þægilegasti og sveigjanlegasti vinnustaður sem ég gæti hugsað mér. Ekki svo að skilja að á þingmönnum hvíli ekki mikil ábyrgð og miklar vinnuskyldur, en þeir geta í talsverðum mæli hagað vinnutíma sínum eftir sínum kortum borið saman við ýmsar aðrar stéttir. Borið saman við einstaklinginn sem situr á símborðinu í fyrirtæki og verður að standa sína vakt allan daginn frá klukkan 8 til 4 og hugsanlega stunda yfirvinnu. Borið saman við vinnutíma fiskvinnslustarfsmannsins, sem stendur við færibandið allan daginn, er vinnutíminn sveigjanlegur og þótt menn þurfi að sinna skyldum sínum um jól, um sumar, um páska er þarna meiri sveigja en almennt gerist á vinnumarkaði.

Ég tók þessa umræðu — og hef oft haldið þessu fram — við ungt foreldri fyrir tæpu ári. Það var ung kona sem bjó ein með barnið sitt. Hún leiddi mig í sannleika um að ég fór villur vegar. Hún sagði: Þetta snýst ekki um sveigjanleika af því tagi sem þú ert að boða. Þetta snýst um barnið þitt, um heimilið þitt, að þú lagir vinnustaðinn að þörfum þess en knýir ekki barnið inn í þann sveigjanleika sem þú dáist svo mjög að, barnlaus maðurinn, börnin farin að heiman.

Ég skal segja það beint út að þetta breytti mjög viðhorfum mínum og ég fór að hugsa þessa hluti upp á nýtt. Ég fór að hugsa á hvern hátt — og ég er ekki einn um þessa hugsun, þetta er hugsun sem við höfum verið að þróa áfram í okkar hópi í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og við fórum líka að hugleiða það sjónarmið sem hv. þm. Ellert B. Schram tefldi fram, sem er alveg hárrétt, að til þess að geta skipulagt vinnudaginn þarftu að vita nánar um ræðutímann, hve langar umræður verða. Það er alveg hárrétt, og við fórum að þróa hugmyndir okkar samkvæmt þessu tvennu, hvernig við gætum teflt þessu tvennu saman, að stytta vinnudaginn, laga hann að þörfum litla barnsins og fjölskyldufólksins, án þess að við glötuðum þeim markmiðum sem við viljum standa vörð um.

Hver eru þau? Þar vísa ég aftur í það sem við segjumst öll vera sammála um: Að tryggja vandaða lagasmíð sem þýðir að óvönduð lög og umdeild renni ekki áreynslulaust í gegnum þingið með hraði og án þess að þau fái málefnalega og vandaða umfjöllun. Að meiri hluti knýi ekki fram mál sem eru umdeild, pólitískt umdeild, sem kalla á umræðu í samfélaginu. Hvernig látum við þetta tvennt ríma saman? Það er þessum hugmyndum sem við tefldum inn í umræðu um breytingar á þingskapalögum og við höfum verið að gera það á undanförnum mánuðum, missirum og árum, hvernig við gætum fært næturfundi inn í dagsljósið, stytt vinnudaginn, lengt þinghaldið, náð markmiðum okkar um vandaðri vinnubrögð, vandaðri umræðu, en um leið þessum fjölskylduvænu áherslum. Þetta hefur verið verkefnið.

Þessar áherslur ríma nákvæmlega við það sem við heyrum nú frá starfsmönnum Alþingis. Í bréfi starfsmanna Alþingis til okkar er þessu einnig teflt fram vegna þess að þeir hafa áhyggjur af því að þær hugmyndir sem meiri hlutinn hér vill knýja í gegn gangi ekki upp gagnvart þeim. Þá spyr ég: Getum við virkilega talað um vönduð vinnubrögð og að hv. formaður allsherjarnefndar hafi sýnt geysilega þolinmæði og langlundargeð þegar í ljós kemur að hann hefur ekki einu sinni rætt við starfsmenn Alþingis, það fólk sem starfar hér undir okkar handarjaðri? Finnst mönnum það vera vönduð vinnubrögð, finnst mönnum það vera ásættanlegt? Nei.

Þá kem ég aftur að megináherslunni í máli mínu. Þingið er að þróast. Við erum að þróast og við eigum að gefa okkur tíma til þess að móta þessa þróun af yfirvegun. Þegar menn fóru að ræða þessa hluti í haust, menn hafa verið að gera það á undanförnum missirum, bæði í þingflokkum og að mjög takmörkuðu leyti en nokkru í hópi þingflokksformanna, fórum við sem sagt að tefla fram þessum hugmyndum um vinnutímann, að við værum sátt við að stytta ræðutímann ef við gætum þrengt að umræðunni hér, gert hana markvissari og komið í veg fyrir að mál rynnu áreynslulaust í gegn og án gagnrýni.

Þessum spurningum, þessum viðhorfum okkar, var að hluta til svarað mjög yfirborðslega, á þá lund að þingið skyldi að jafnaði standa til klukkan sjö eða átta, ljúka klukkan átta nema á þriðjudögum, þá mætti það vera til tólf. En vandinn var sá að þetta átti að vera á forræði forseta þingsins og meiri hlutans í þinginu. Tveir þriðju meiri hluta, sem er stjórnarmeirihlutinn hér nú, gat breytt þessu öllu, starfsmenn Alþingis benda líka á þetta, að þetta sé vafasamt. (Gripið fram í.) Þar gildir einfaldur meiri hluti. Með öðrum orðum, þessar grunnreglur, þetta grunnsjónarmið, sem er jákvætt, er mjög yfirborðslegt og heldur illa. Þegar ég kynnti þetta fyrir ungu konunni sem breytti mér og mínum viðhorfum spurði hún: Hvers vegna ekki klukkan fimm, hvers vegna lýkur deginum ekki klukkan fimm? Hvers vegna byrjar dagurinn í þingsal ekki klukkan níu? Hvers vegna er skipulag þingsins með þessum hætti? spurði hún.

Svar mitt var þetta: Þetta er byrjun. Ég tel að við eigum að sætta okkur við þetta sem byrjun og koma til móts við þá sem vilja fara þessa leið með því að byrja að þrengja að umræðunni. Byrjum á því að stytta 3. umr., sem nú er ótakmörkuð, styttum hana, gerum hana stutta og markvissa. Við lögðum upp með það að láta 2. umr. bíða. Þegar við stígum næstu skref í styttingu umræðutímans hér á þingi skulum við fara inn í 2. umr. Þetta var það sjónarmið sem ég kom margoft á framfæri.

Menn vildu ekki fallast á þetta. Menn vildu líka þrengja að 2. umr. Nú var úr vöndu að ráða, við vorum ein um þetta sjónarmið. Þá sögðum við: Við erum reiðubúin til samkomulags, að teygja okkur líka í þessa átt, að takmarka að einhverju leyti ræðutíma við 2. umr., að einhverju leyti, en það verður að ráðast af rammanum og reglunum sem settar eru að öðru leyti. Um þetta snýst deilan. Við vorum reiðubúin að teygja okkur mjög langt, í hjarta mínu finnst mér allt of langt, vegna þess að mér finnst það óskynsamlegt hve langt við vorum tilbúin — og ég líka með mínu samþykki — að teygja okkur, en við vildum gera allt til að ná samkomulagi.

Ef fara á þessar leiðir og ef ákvörðunarvaldið liggur hjá forseta þingsins væri allt önnur staða uppi ef forseti þingsins, verkstjórinn í þessu húsi, kæmi úr stjórnarandstöðunni, kæmi frá þinginu sem stendur hér gagnvart framkvæmdarvaldinu og á að gæta þess að framkvæmdarvaldið og stjórnarmeirihlutinn gerist ekki of ágengur gagnvart Alþingi. Þarna voru komnar hugmyndir og tillögur sem við tefldum einnig fram, bæði varðandi stjórn þingsins og einnig stjórn í nefndum. Við vorum ekki mjög afdráttarlaus hvað það varðar og sögðum: Jafnvel þótt við næðum ekki formennsku í nefndum fyrir stjórnarandstöðuna, gerumst ögn málefnalegri en við erum nú, nýtum reynsluna, horfum til reynslunnar, þingreynslunnar, og látum ekki skipta okkur eða draga okkur í dilka eftir stjórn eða stjórnarandstöðu. Það var hugsun sem við höfum teflt fram til málamiðlunar.

Þetta er umræða sem hefur verið að þróast og er að þróast og ég vil leggja áherslu á að við erum að breytast, við erum að taka breytingum og við eigum að taka á móti þessum breytingum saman en ekki með þeim hætti sem hér er verið að reyna að þröngva upp á okkur.

Aðeins um löngu ræðurnar og stuttu markvissu skoðanaskiptin. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði erum almennt miklu hlynntari snörpum umræðum en mjög löngum og langdregnum, að sjálfsögðu, þær eru skemmtilegri og ef menn eru í því sem sumir kalla pólitískar skylmingar, að koma sínum pólitísku sjónarmiðum á framfæri, getur það verið ágætlega árangursríkt. Hins vegar geta komið upp frumvörp sem kalla á ítarlega umræðu, frumvarp til laga um hegningarlöggjöf, lagabálkur um umhverfisvernd, ég tek þetta sem dæmi, sem getur kallað á ítarlega umræðu, ekki af hálfu allra þingmanna heldur hugsanlega tveggja, þriggja, þeirra sem best og gerst þekkja til mála. Það er þetta sem ég segi, menn eiga ekki að gerast of alhæfingarsamir.

Ég man eftir því þegar ég kom fyrst inn á vettvang verkalýðshreyfingar sem formaður BSRB og tók þátt í kjarasamningum þar sem öll aðildarfélög bandalagsins komu að málum og ég var spurður af viðsemjendum okkar hvort ég hefði bevís upp á vasann um að menn hefðu afsalað sér samningsumboði. Ég sagði nei. Hvernig get ég gengið út frá því að þið standið öll saman þegar á reynir? Þú getur ekki gengið út frá því á annan hátt en þann, svaraði ég, að við höfum viljann til þess. Við störfum saman af fúsum og frjálsum vilja en ekki í járnum. Það er þannig sem þróa á Alþingi Íslendinga. Við eigum að þróa starfið af fúsum og frjálsum vilja en ekki með þvingunum af því tagi sem við erum að verða vitni að hér.