135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[10:34]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég harma að hér skuli keyrt í gegn frumvarp í óþökk minnihlutahóps, þingmanna Vinstri grænna. Ég harma líka vinnubrögðin og verð að vara við afleiðingunum af þessu. Það er stílbrot í þessu, brotin órofa hefð um að reynt sé að ná samstöðu um þessi mál. Ég fullyrði að það hefur ekki verið gert. Það var lagt fram fullskapað frumvarp og ég hef það eftir mörgum þingmönnum í salnum að þeir hafi lítt eða illa kynnt sér þetta frumvarp eða komið að verkinu meðan sú smíð stóð yfir.

Ekkert samráð var haft við starfsfólk þingsins eða aðra sem hefðu getað lagt orð í belg. Engir gestir komu á fundi nefndar og engar umsagnir. Með því að slíta með þessum hætti sundur friðinn blasir við að það er fallið til að vekja trúnaðarbrest. Það er fallið til að auka á samstarfsörðugleikana, það er fallið til þess að þingið gangi ekki jafnsnurðulaust og það getur gert. Ég verð að taka fram, herra forseti, að hér er ætlunin að stefna að vinnustað þar sem unnt er að samræma vinnu á þingi og fjölskylduábyrgð. En svo er ekki. Við stígum ekki hænufet fram í þeim efnum.

Félag starfsmanna Alþingis er óumbeðið sendi umsögn inn í allsherjarnefnd lýsir því yfir að það sé engin trygging fyrir því í frumvarpinu að hér sé stuðlað að betri og fjölskylduvænni vinnustað. Starfsmennirnir hafa líka efasemdir um lengingu tímans, sérstaklega styttingu sumarleyfa, og segja beinlínis í umsögn sinni:

„Versti ókosturinn við núverandi fyrirkomulag er einmitt að starfsmenn vita ekki í upphafi vinnudags hve lengi þingfundur muni standa og gerir það starfsfólki erfitt fyrir við að samræma vinnu og fjölskylduábyrgð.“

Ekkert hefur breyst í þessum efnum. Forsetinn, herra forseti, hefur enn alræðisvald til að halda endalausa kvöldfundi og endalausa næturfundi. Það er ekkert í frumvarpinu að finna sem gerir skipulag í nefndarvinnu eða upplýsingaöflun betri. Þess vegna hvarflar að mér að tilgangurinn sé allur annar en umhyggja fyrir skilvirkni þingstarfa.

Einhver hvíslaði að mér að frumvarpið héti „að stinga upp í Steingrím“. Er það tilgangurinn, er það lýðræðisþreytan sem ræður hér för, lýðræðisóþægindin? Eru framkvæmdarvaldið og stjórnsýslan að setja okkur reglur?