135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

innheimtulög.

324. mál
[11:27]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni og Jóni Magnússyni fyrir þeirra jákvæðu viðtökur á þessu góða máli og athyglisverðu ábendingar um ýmis ákvæði málsins en það má lengi fylla út í tiltekin ákvæði og skýra önnur og gera betri og skarpari o.s.frv., og ég fagna þeirra tillögum beggja í þá veru mjög. Hér er um að ræða eins og fram kom, framkvæmd á innheimtulögum almennt, ramma utan um innheimtuaðgerðir og innheimtustarfsemina með það að markmiði að hér ríki almennt góðir innheimtuhættir og betri en tíðkast hefur.

Það er nauðsynlegt að skýra þann ramma og í rauninni alveg sjálfsagt mál að byggja upp slíka vernd gagnvart almenningi, neytendum, þriðja aðila sem hefur ekkert um það að segja hvaða innheimtuaðili er valinn, hvernig hann gengur fram, hvaða kostnað hann setur á innheimtuna o.s.frv. Þetta er mjög mikið hagsmunamál. Þess vegna hafa margir barist fyrir því lengi og það er oft þannig með góð mál sem eru lengi í deiglunni hvort sem er hjá frjálsum félagasamtökum eins og Neytendasamtökunum, stjórnmálamönnum sem taka það upp, hjá stjórn eða stjórnarandstöðu, að málin þroskast og þeim fleytir fram og það koma athugasemdir um ýmis ákvæði sem mega betur fara, sumt til málamiðlunar, annað til að skerpa og gera enn þá öflugra.

Hv. þm. Jón Magnússon nefndi áðan það ákvæði í 12. gr. sem kannski helst hefur verið deilt um í gegnum tíðina eða áður fyrr þegar málið var til umræðu eins og fyrir tæpum áratug þegar forveri minn, þáverandi hæstv. viðskiptaráðherra, flutti svipað mál um heimild til viðskiptaráðherra til að setja hámark á innheimtukostnað. Um þetta var deilt talsvert á þeim tíma, þá var þetta meira inni á lögmannsskrifstofunum en núna og mætti andstöðu þar. Ég held að sú andstaða hafi minnkað verulega. Ég held að skilningur bæði fjármálafyrirtækjanna og innheimtufyrirtækjanna sem hafa með þetta að gera núna og lögmannastéttarinnar á mikilvægi þess bæði fyrir þá, fyrir kröfuhafann og fyrir neytendur, að setja skýran ramma utan um góða innheimtuhætti hafi aukist verulega. Ég hef ekki fundið í þeirri vinnu sem hefur farið fram uppi í viðskiptaráðuneyti á síðustu 5–6 mánuðum um þetta mál að það sé nein teljandi andstaða, a.m.k. er mjög aukinn stuðningur við málið nú en það hefur verið flutt í ýmsum útgáfum hér á Alþingi á undaförnum árum.

Þetta er mál sem er öllum til hagsbóta, t.d. var starfshópur á vegum viðskiptaráðuneytisins sem tilkynnti niðurstöður vegna gjaldtökuheimilda fjármálafyrirtækja, sem er skylt mál og sá starfshópur hafði einmitt með þetta að gera, þ.e. framkvæmd innheimtna. Við ákváðum hins vegar strax í haust að taka það sérstaklega út og vinna þetta lagafrumvarp og stilla því fram sérstaklega, burt séð frá vinnu starfshópsins um gjaldtöku fjármálastofnana sem hafði ærin önnur verkefni eins og þekkt er með afnám seðilgjalda, takmörkun á yfirdráttarkostnaði, takmörkun á uppgreiðslugjöldum o.s.frv. Sú vinna tók rétt rúma fjóra mánuði, frá því í ágústlok og fram að áramótum þegar nefndin skilaði af sér nákvæmlega á áramótunum eins og óskað var eftir að hún gerði. Þar freistuðum við þess að sjálfsögðu að vinna málið með bönkunum og fjármálastofnunum þannig að það ríkti ágæt og bærileg sátt um niðurstöður starfshópsins en þetta eru mjög viðkvæm mál eins og hv. þingmenn sem hér ræddu áðan um málið bentu sérstaklega á. Í því felst allt sem snýr að gjaldtöku hvort sem um er að ræða innheimtur sem þessar þar sem mál eru send í innheimtu eða aðra gjaldtöku fjármálafyrirtækja. Auðvitað er þetta allt mjög viðkvæmt mál. Það sem skiptir mestu máli og ég fagnaði sérstaklega í niðurstöðum starfshópsins um gjaldtöku fjármálafyrirtækjanna var að þar er komið tækifæri til að skýra mjög gjaldtökuramma fjármálafyrirtækjanna, þeim sjálfum að sjálfsögðu til mestra hagsbóta. Það er enginn að bera ávirðingar á þær, að þar sé verið að ganga neitt almennt of harkalega fram o.s.frv. En það þekkja allir dæmi um slíkt og það er deilt um það hvaða heimildir fjármálafyrirtæki hafi til gjaldtöku, það er deilt um innheimtuaðgerðir, innheimtukostnað og innheimtuhætti. Þetta snýr allt að grundvallaratriðum samfélagsins, að hér þrífist almennt sanngjarnir og réttlátir viðskiptahættir og þetta snýr að grundvallaratriðunum. Út úr vinnu starfshópsins kom það, eins og ég nefndi áðan, að innheimta seðilgjalda, viðbótarkröfur við aðalkröfu eru ekki heimilar og þá þegar hófst samstarf með samtökum atvinnulífs og þeim sem hafa með þetta að gera hinum megin frá við að útfæra þetta mál. Það mun fara bréf frá mér sem viðskiptaráðherra til þessara aðila um að seðilgjöld séu ekki heimil og það er sanngjarnt að fjármálafyrirtækin og þeir sem hafa með þetta að gera og eru náttúrlega að innheimta þetta fyrir ýmsa aðila, gefist um það bil 10 vikna svigrúm, rúmlega tveggja mánaða svigrúm til að koma þessu til framkvæmda. Innan þess tíma ættu t.d. seðilgjöldin að heyra sögunni til. Innheimtukostnaðurinn þarf að spegla yfirdregna upphæð og vera sanngjarn og hóflegur o.s.frv.

Þetta er vinna sem er í gangi á mörgum sviðum og innheimtulögin voru upphaflega, í ágúst, partur af vinnu þessa starfshóps um gjaldtöku fjármálafyrirtækja. Það kom berlega í ljós að þetta mál hafði þroskast mjög á mörgum árum, það hafði verið unnið vel af mörgum, í þingnefnd, af fyrrverandi ráðherrum og þingmönnum og það hafði byggst upp mjög gott mál sem þurfti að taka utan um, vinna vel í nokkra mánuði og koma í frumvarp sem mætti ná ágætri sátt um, bæði inni á Alþingi og í samfélaginu öllu, enda mál sem er mjög gott í sjálfu sér.

Hv. þm. Jón Magnússon nefndi nokkur atriði, t.d. það að í 12. gr. kæmi fram að viðskiptaráðherra bæri að setja hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar en hefði ekki bara heimildina til þess. Þingmaðurinn nefndi ýmis önnur atriði, t.d. útskýringu á góðum innheimtuháttum eða kannski því sem væru ekki góðir innheimtuhættir í framkvæmd gegn skuldara í þessari viðkvæmu starfsemi, einnig atriði er varða skriflega viðvörun, hvenær og hvar, frest frá innheimtuviðvörun, fyllri ákvæði á ýmsum sviðum og ég fagna þeim tillögum þingmannsins mjög. Hann er einn af þeim sem hefur barist fyrir þessu máli í mörg ár í starfi sínu í Neytendasamtökum og á öðrum vettvangi þjóðfélagsmála og ég fagna því mjög að þingmaðurinn kemur að vinnu við þetta mál með okkur í framhaldinu.

Hann nefndi ýmis ákvæði málsins sem helst hefur verið deilt um í gegnum tíðina, t.d. það sem ég benti á í 12. gr., um heimild ráðherra til að setja þak á innheimtukostnað, en ég er að vona að náist ágæt sátt um núna að verði sett inn í lögin. Mér finnst vel koma til greina að fara þá leið sem þingmaðurinn nefnir að ráðherra skuli setja fjárhæðir en hafi ekki bara heimildina og ég bíð með eftirvæntingu eftir að sjá hvernig nefndin fjallar um það og hvaða viðhorf koma þar fram og niðurstaða þegar málið kemur út úr nefnd til 2. umr.

Það er að sjálfsögðu eins og um öll góð mál að þau taka yfirleitt breytingum til hins betra í nefndarstarfinu og það verður án efa um þetta mál líka. Það kemur sjálfsagt þannig út þaðan að ýmis ákvæði verða enn þá fyllri og betri, t.d. það að útskýra eða skilgreina nákvæmar eða nákvæmlega hvað eru góðir innheimtuhættir og hvað eru ekki góðir innheimtuhættir. Þetta eru allt mjög góðar ábendingar sem ég fagna og efast ekki um að nefndin taki til gagngerðrar skoðunar í starfi sínu því þetta er eitt af þeim málum sem við lögðum mikla áherslu á í viðskiptaráðuneytinu frá því í vor að gæti komið inn í þingið á fyrsta vetri kjörtímabilsins.

Annað mál sem tengist beint og óbeint þessu máli og skýrslu starfshóps um gjaldtöku fjármálafyrirtækja sem ég gerði grein fyrir áðan af því að það tengist þessu beint, er líka mál sem hefur þroskast í baráttu margra, bæði stjórnmálamanna og innan neytendasamtaka á þessum vettvangi, það er mál um greiðsluaðlögun fyrir einstaklinga sem hafa lent í fjárhagserfiðleikum vegna atvinnumissis, tekjumissis eða annarra ytri aðstæðna. Það mál er komið út úr starfshóp og inn í viðskiptaráðuneyti og er þar komið í frumvarpsdrög. Vonandi get ég kynnt það í ríkisstjórninni innan fárra daga. Það er eins konar systurmál innheimtufrumvarpsins og gjaldtökumálsins sem ég nefndi áðan sem munu líka skila sér inn í þingið í breytingum á lögum um neytendalán. Þetta eru allt stór neytendamál sem lengi hefur verið barist fyrir og hafa þroskast í umræðunni og ég bind miklar vonir við að þau nái því stigi í nefndarvinnunni að verða að lögum á Alþingi í vor þannig að um það sé ágæt sátt og þau verði íslenskum neytendum til mikilla hagsbóta því þetta eru grundvallarmál til að byggja upp öfluga neytendavernd á Íslandi.

Það er mjög jákvætt hvað neytendamálin eru í aukinni stjórnmáladeiglu víða um lönd. Ég var að koma í gær í heimsókn frá Brussel og Luxemborg þar sem ég fundaði með þremur framkvæmdastjórum eða kommissörum úr Evrópusambandinu, kommissar samkeppnismála, neytendamála og innri markaðsmála. Það var mjög skemmtilegt að ræða við t.d. neytendakommissarinn sem hefur verið þarna í nokkra mánuði, búlgörsk kona og mikill kraftur í henni á vettvangi Evrópusambandsins. Hún er að setja af stað mikla og framsækna stefnumótandi vinnu á vettvangi neytendamála rétt eins og við erum að gera heima með ýmsum hætti. Sem dæmi um það má nefna að síðastliðið haust kynnti viðskiptaráðuneytið samning sem gerður var við þrjár háskólastofnanir um rannsóknarstöðu neytendamála og neytenda hér og við fáum áfangaskýrslu af því núna í febrúar og lokaskýrslu í apríl. Þar ættum við að fá fóður og efnivið í ýmiss konar vinnu, löggjafarvinnu og annað sem snýr að því að stórefla stöðu neytenda og neytendamála í íslensku þjóðfélagi.