135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

rannsóknir og sjálfbær nýting jarðhitasvæða.

13. mál
[18:09]
Hlusta

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um rannsóknir og sjálfbæra nýtingu jarðhitasvæða. Flutningsmenn auk mín eru hv. þingmenn Kolbrún Halldórsdóttir og Árni Þór Sigurðsson. Tillögugreinin er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp sem fái það verkefni að leita leiða til að tryggja að umhverfisáhrifum af framkvæmdum á jarðhitasvæðum verði haldið í algjöru lágmarki. Hópurinn semji verklagsreglur fyrir framkvæmdaraðila sem taki mið af Ríó-yfirlýsingunni; meginreglum umhverfisréttar og öðrum skuldbindandi samningum sem Ísland á aðild að með það að markmiði að nýting jarðvarmans uppfylli skilyrði sjálfbærrar þróunar. Þá verði hópnum falið að semja tillögur að lagabreytingum með framangreind markmið í huga. Starfshópurinn verði skipaður fulltrúum þingflokka á Alþingi, einum fulltrúa iðnaðarráðuneytisins og einum fulltrúa umhverfisráðuneytisins, auk eins fulltrúa frá hverri af eftirtöldum stofnunum: Orkustofnun, Íslenskum orkurannsóknum, Jarðfræðistofnun Háskóla Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands og Stofnun Sæmundar fróða. Forsætisráðherra skipi formann starfshópsins. Niðurstöður hópsins verði kynntar Alþingi fyrir árslok 2008.“

Tillaga um sama efni var lögð fram á 133. löggjafarþingi. Hún er nú lögð fram nokkuð breytt, m.a. í samræmi við umsögn sem barst sl. vor frá Orkustofnun til hv. iðnaðarnefndar, dagsettri 26. febrúar 2007, þar sem mælt er með því að ríkisstjórnin skipi starfshóp til að undirbúa meginreglur um sjálfbæra nýtingu jarðhita. Flutningsmenn hafa tekið þeim ábendingum með því að fella það inn í tillögugreinina sérstaklega.

Efni þessarar tillögu er tvíþætt: Annars vegar hvernig lágmarka megi umhverfisáhrif, ekki einungis af rannsóknum á jarðhitasvæðum heldur einnig hvernig koma megi í veg fyrir og lágmarka röskun á undirbúnings- og vinnslustigi á jarðhitasvæðunum. Í öðru lagi hvaða mælikvarða eigi að leggja á sjálfbærni við nýtingu jarðhitasvæða.

Undanfarið hafa umræður um óafturkræf umhverfisáhrif stórra vatnsaflsvirkjana eins og Kárahnjúkavirkjunar orðið til þess að menn hafa í auknum mæli beint sjónum að jarðvarmavirkjunum þar sem slíkar virkjanir skilja ekki eftir eins alvarleg sár í viðkvæmri náttúru landsins eins og vatnsaflsvirkjanirnar gera og í þeirri von að um þær megi nást betri sátt meðal þjóðarinnar. Umhverfisáhrifin af jarðvarmavirkjunum sem blasa hins vegar við vegfarendum á Hellisheiði nú í tengslum við framkvæmdir við Hellisheiðarvirkjanir benda þó ekki til annars en töluvert rask fylgi slíkum virkjunum. Það varð töluvert mikil umræða um þetta rask sem fylgir nýtingu jarðhitasvæða þegar Hellisheiðin var tekin í notkun þar sem menn sáu allt í einu að þarna liggur pípa við pípu og vegur við veg en það er ekki eins algengt að menn komi auga á það þar sem verið er að nýta jarðhitasvæði sem liggja fjær byggð.

Háhitasvæðin okkar á Íslandi eru um 20 talsins. Þau eru frekar sjaldgæf á heimsvísu og hafa þess vegna mikið verndargildi vegna sérstöðu sinnar. Okkur ber því að umgangast þau af fyllstu varúð. Þarna myndast mjög sérstakar aðstæður á yfirborði sem eru ólíkar umhverfinu í kring og því miður liggja ekki fyrir nægilegar grunnupplýsingar um gróður- og jarðmyndanir á þessum svæðum sem þó eru mörg hver ef ekki allflest nefnd sem kostir til virkjunar jarðvarma.

Það á því miður við um fleiri landsvæði að upplýsingar séu af skornum skammti en nú er fyrirhugað að ljúka rannsóknum á náttúrufari og verndargildi háhitasvæða í sumar en úrvinnslunni mun vart ljúka fyrr en á árinu 2009. Verkefnið snýr bæði að gróðurfari og jarðhitamyndunum og er liður í rammaáætlun sem fyrirhugað er að leggja fyrir Alþingi, væntanlega fyrir árslok 2009. Yfirlýst er af hálfu ríkisstjórnar að ekki verði úthlutað fleiri rannsóknarleyfum fyrr en þeirri vinnu lýkur.

Á bls. 3 í greinargerð með þessu frumvarpi er tafla sem sýnir sjö útgefin rannsóknarleyfi í jarðhita eins og þau voru á árinu 2006. Þessar upplýsingar voru sóttar af heimasíðu iðnaðarráðuneytisins, 2. október 2007. Þessi tafla er óbreytt í dag, 21. febrúar 2008, á heimasíðu ráðuneytisins, þar hefur ekkert bæst við. Með tilkynningu frá iðnaðarráðuneytinu í júlí 2007 var vísað frá umsóknum um rannsóknarleyfi sem þarna eru nefnd nokkur, neðst á bls. 2 og efst á bls. 3 í greinargerðinni, þ.e. vísað var frá umsóknum um rannsóknarleyfi í Brennisteinsfjöllum, Fremri-Námum, Grændal, Kerlingarfjöllum og á Torfajökulssvæðinu. Þetta er gott svo langt sem það nær en því miður heyktist hæstv. iðnaðarráðherra á því að afturkalla rannsóknarleyfi sem gefið var út í Gjástykki, rannsóknarleyfi sem var úthlutað tveimur dögum fyrir kosningar, 10. maí sl., á grundvelli umsóknar Landsvirkjunar sem var tveggja daga gömul og var dagsett 8. maí. Það er hróplegt ósamræmi í því að ráðherra skuli ekki hafa afturkallað þetta leyfi vegna þess að þarna var verið að heimila að fara inn á svæði sem er gersamlega ósnortið og svæði sem hefur verið lagt til að vernda.

En menn skulu ekki ætla að tíminn standi kyrr þó að fyrir liggi yfirlýsing um að ekki verði úthlutað rannsóknarleyfum fyrr en næsta áfanga rammaáætlunar er lokið og þegar að því kemur er mjög mikilvægt að fyrir liggi skýrar reglur um hvernig eigi að halda umhverfisáhrifum af framkvæmdum við rannsóknir og virkjanir á jarðhitasvæðunum okkar í algeru lágmarki og ekki síður skilgreining á því hvað er sjálfbær vinnsla jarðhitasvæða en tillagan gerir einmitt ráð fyrir því að starfshópurinn skili Alþingi tillögum fyrir árslok á þessu ári þannig að það ætti að takast og geta haldist í hendur við lok rammaáætlunar á árinu 2009.

Ég tel, herra forseti, mig ekki þurfa að rekja í ítarlegu máli hvers vegna þarf sérstakar reglur um umgengni á þessum svæðum. Eins og rakið er í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu er það því miður svo að einfalt rannsóknarleyfi hefur oft jafngilt stórfelldri eyðileggingu á þeim viðkvæmu svæðum sem hér um ræðir. Það þarf að útbúa borplan, oft er ráðist í vegalagningu með tilheyrandi efnistöku og miklu raski. Hvert borplan tekur yfir um heilan hektara lands. Við skulum ekki gleyma því að allar framkvæmdir, öll tæki sem inn á þessi svæði koma ganga fyrir olíu og það er víst að leirkennt efni, slípimassi, fer ofan í jarðhitageyminn með þessum tækjum. Auk þess er verulegt magn skolvatns sem þarf bæði að afla og farga að ekki sé talað um þá sjónmengun og hávaðamengun sem verður af því þegar rannsóknarholur eru látnar blása.

Það er mjög brýnt að hafa í huga að rannsóknarleyfi eru ekki nýtingarleyfi en engu að síður hafa rannsóknarholur á háhitasvæðum á undanförnum árum verið hannaðar sem slíkar. Ég vil vekja athygli á umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands um umsókn um rannsóknarleyfi á Brennisteinsfjöll sem rakin er á bls. 2 í greinargerðinni en þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Eftir jarðhitarannsóknir, eins og fyrirhugaðar eru í Brennisteinsfjöllum, verður svæðið ekki lengur ósnortið og forsendur fyrir frekari vernd þess breyttar að sama skapi. Rannsóknaleyfi jafngildir því stefnumörkun um framtíðarnýtingu.“

Nú vil ég taka fram að það er búið að vísa frá umsókn um rannsóknir í Brennisteinsfjöllum og er það vel en þetta lýsir í hnotskurn þeim vanda sem hér er á ferð og ég vil vekja athygli á þeim leiðum sem bent er á í þingsályktunartillögunni um það hvernig megi umgangast þetta betur, bæði með því að flytja tæki í smærri og léttari einingum, gera það meðan frost er í jörðu, jafnvel nota til þess þyrlur ef þörf krefur.

Herra forseti. Grundvallaratriðið er þó að nýting jarðhitasvæðanna okkar sé sjálfbær, og hvað er nú það? Hugtakið „sjálfbær þróun“ sem fyrst kom fram á sjónarsviðið í Brundtlandsskýrslunni 1987 er skilgreint þannig að þörfum okkar á líðandi stundu skal vera fullnægt án þess að gengið sé á möguleika komandi kynslóða til að fullnægja sínum þörfum. Eitt veigamesta atriðið í slíkri þróun er auðvitað sjálfbær auðlindanýting. Annað meginefni þingsályktunartillögunnar fjallar einmitt um nauðsyn þess að skilgreina hvað telst sjálfbær nýting jarðhitasvæða.

Á síðustu 10 árum hefur raforkuframleiðsla með jarðvarma meir en fimmfaldast. Í lok árs 2005 var hlutur jarðhitavirkjana 15,4% af raforkuvinnslu í landinu og hefur væntanlega tvöfaldast síðan með tilkomu virkjana á Hellisheiði og á Reykjanesi og er nú talinn um 25% eða fjórðungur um síðustu áramót af þeirri raforku sem framleidd er. Þetta er athyglisvert og tiltölulega ný staða því þótt jarðvarminn hafi snemma verið notaður til húshitunar og til baða og þvotta þá var það ekki fyrr en seint á 10. áratug síðustu aldar að með nýrri tækni var unnt að framleiða raforku úr gufunni. Raforkuframleiðsla með gufu hófst á Nesjavöllum 1995 en sem hliðarbúgrein við hitaveituna og þótti í rauninni hreinn bónus. En nú er af sem áður var. Það er jafnvel fullyrt að framleiðslukostnaður raforku í Hellisheiðarvirkjun sé lægri en heildsöluverð Landsvirkjunar en sú staðreynd hvetur sveitarfélögin sem eiga Orkuveitu Reykjavíkur eða Hitaveitu Suðurnesja til frekari raforkuframleiðslu úr gufunni án þess að heita vatnið sé nýtt til húshitunar eða iðnaðar. En með því móti, herra forseti, er aðeins verið að nýta 7–13% orkunnar. Allt að 90% fara forgörðum ef ekki tekst að skila vatninu ofan í geyminn aftur, sem mikil vanhöld hafa verið á. Þannig er því miður komið allri þessari nýtingu sem nú er kallað eftir á jarðhitasvæðunum okkar, á háhitasvæðunum, að menn eru að horfa til þess að framleiða þar eingöngu raforku en ekki að nýta heita vatnið sem við það myndast.

Ég vil vekja athygli hv. þingmanna á grein sem birtist í Viðskiptablaðinu 20. nóvember sl. sem ber fyrirsögnina „Rjóminn fleyttur af auðlindinni“ þar sem gerð er grein fyrir mismunandi aðferðum sem nota má til að nýta jarðhitasvæði, annars vegar stöðuga vinnslu eins og hingað til hefur tíðkast á jarðhitasvæðin þar sem hægt er að halda sömu framleiðslugetu og jafnvel tífalda hana eins og í Laugarnesinu yfir lengri tíma án þess að gengið sé á jarðhitageyminn. En það er líka vakin athygli á ágengri vinnslu og það er sú vinnsla sem er fyrirhuguð í Hellisheiðarvirkjun vegna þess að þar á vísvitandi að nýta, blóðmjólka svæðið í 30 ár og hvíla það síðan í 30 ár á milli. Ástæðan sem gefin er fyrir þessu er eins og einn starfsmaður segir í umræddu viðtali, með leyfi forseta:

„Núna er það þannig að til þess að borgi sig að virkja, eins og við gerum núna, þurfum við að vera ágengir, taka massann hraðar upp úr en hann kemur neðan frá.“

Það er alveg ljóst, herra forseti, að með þessu móti er ekki verið að vinna jarðvarmann okkar með sjálfbærum hætti. Það er mjög mikilvægt að það verði skilgreint ítarlega hvernig má nýta þessi svæði og eins og ég nefndi áðan er Orkustofnun hvött til þess.

Ég vil líka nefna vegna frumvarps hæstv. iðnaðarráðherra á þskj. 304, um upprunaábyrgð á raforku, að það frumvarp krefst þess einnig að skilgreint sé nákvæmlega hvað er endurnýjanleg raforka.