135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

545. mál
[21:05]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég lít nú svo á að það frumvarp sem hér liggur fyrir sé í sjálfu sér eðlileg og réttmæt og nauðsynleg réttarbót. Í beinu framhaldi af því máli sem við vorum að ræða áðan, um aðgerðaáætlun varðandi innflytjendur, erum við hér að tala um það hvernig við uppfyllum eðlileg og nauðsynleg skilyrði fyrir ríkisborgara ríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Það er í sjálfu sér af hinu góða og mér finnst ástæða til að styðja þann hluta frumvarpsins sem lýtur að því ákvæði.

Í 3. mgr. erum við síðan að tala um víðtækari rétt þar sem talað er um ríkisborgara ríkja Evrópska efnahagssvæðisins sem starfa ekki sem launþegar eða sjálfstæðir atvinnurekendur á Íslandi. Í sjálfu sér er ekki við því að amast og þar er fjallað um eðlilegan ramma, þ.e. fimm ára samfellda búsetu á Íslandi, með þá tilvísun til 4. mgr. Síðan koma nánari skýringar á því sem um er að ræða í 4. mgr. sem er í sjálfu sér ágætt líka en síðan eru alveg réttmætar ábendingar í lokamálsgrein þeirrar málsgreinar, þ.e.: „Menntamálaráðherra getur sett reglur um námslánarétt eftirlaunaþega, öryrkja og annarra launþega eða sjálfstæðra atvinnurekenda sem ekki uppfylla skilyrði 3. mgr. um fimm ára samfellda búsetu á Íslandi.“ Þá er spurning með hvaða hætti slíkar reglur ættu að vera og hvort það sé ekki í sjálfu sér eðlilegt og tæmandi talið sem hér að framan getur og hvort það sé nokkur ástæða til að hafa þetta ákvæði í lögum. Það mætti þess vegna strika það út að skaðlausu. Ég er sammála þeim sem hér hafa talað um að það er óeðlilegt og óheppilegt að hafa víðtækt lagaframsalsvald til handa framkvæmdarvaldshafa í lögum eins og hér er að hluta til tekið upp.

Varðandi það að námsmenn eigi ekki rétt á námsaðstoð samkvæmt lögum þessum njóti þeir sambærilegrar aðstoðar frá öðru ríki er það sjálfsagt og eðlilegt ákvæði.

Þá komum við að lokamálsgreininni þar sem segir í byrjun: „Menntamálaráðherra getur sett reglur um rétt íslenskra og erlendra ríkisborgara til námsaðstoðar á Íslandi og erlendis, þar á meðal vegna þjóðréttarlegra skuldbindinga.“

Ég get séð að það geti verið ástæða til þess, þrátt fyrir að hér sé um framsal lagasetningarvalds að ræða, að veita stjórnvöldum þessa heimild svo fremi að menn orði þessa málsgrein með örlítið öðrum hætti, t.d. með því að strika út orðin „þar á meðal“ og setja bara punkt á eftir „þjóðréttarlegra skuldbindinga“. Lokamálsgrein greinarinnar mundi þá hljóða svo: „Menntamálaráðherra getur sett reglur um rétt íslenskra og erlendra ríkisborgara til námsaðstoðar á Íslandi og erlendis vegna þjóðréttarlegra skuldbindinga.“ Þá náum við því markmiði sem mér sýnist vera stefnt að í frumvarpinu en færum ekki lagasetningarvaldið um of eða með óeðlilegum hætti frá Alþingi þar sem það á að vera.