135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

samræmd neyðarsvörun.

191. mál
[14:15]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir fyrirvara hv. þm. Atla Gíslasonar í þessu máli en eins og fram kom í máli hv. formanns nefndarinnar gerir hv. þm. Atli Gíslason fyrirvara við nefndarálitið. Sá fyrirvari lýtur fyrst og fremst að 8. gr. og mun ég fara yfir sjónarmið hans og okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í ræðu minni.

Fyrst vil ég þó segja að ég fagna því að hv. formaður nefndarinnar skuli hafa gefið þá yfirlýsingu að málið verði tekið að nýju inn í nefndina að lokinni þessari umræðu. Ég tel fulla ástæðu til að svo verði gert.

Hæstv. forseti. 8. gr. frumvarpsins fjallar um rekstur og rerkstrarform vaktstöðvarinnar, vaktstöðvar samræmdrar neyðarsvörunar. Í frumvarpstextanum er gert ráð fyrir að vaktstöðin sé í höndum hlutafélags um rekstur slíkrar stöðvar og dómsmálaráðherra falið, samkvæmt orðanna hljóðan, að semja við rekstraraðila um fyrirkomulag, fjármögnun og þátttöku í rekstrinum.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum áður gert athugasemd við það að neyðarsvöruninni skuli vera fyrir komið í hlutafélagaformi. Að okkar mati er um að ræða þjónustu við almannaheill og öryggi borgaranna, þjónustu sem ómögulegt er að reka öðruvísi en af opinberu fé í þágu almannaheilla en ekki með hagnaðarvon að leiðarljósi eins og hlutafélögum er eðli máls samkvæmt gert að reka sig. Með því að hafa neyðarsvörunina alfarið í rekstri hins opinbera, ríkisins eingöngu eða ríkis og sveitarfélaga, mundum við tryggja það að upplýsingalög, lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og stjórnsýslulög, giltu um þessa starfsemi. Það hlýtur að teljast eðlilegt, t.d. í ljósi 7. gr. frumvarpsins þar sem segir að starfsfólki vaktstöðvarinnar skuli gert að gæta þagmælsku um atriði sem það fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skuli fara samkvæmt lögum og reglugerðum eða eðli máls. Einnig er tekið fram í lagagreininni að þagmælskan skuli gilda jafnvel þó að menn láti af störfum og að starfsfólki verði gert að undirrita þagnarheit áður en það hefur störf.

Hér er verið að lýsa skyldu sem hvílir eðli máls samkvæmt á opinberum starfsmönnum og er eðlilegt að hvíli á þeim starfsmönnum hins opinbera, ríkis og/eða sveitarfélaga, sem fá upplýsingar af því tagi sem hér um ræðir. Ekkert í eðli þessa starfs, neyðarsvörunar, krefst þess að um hlutafélag sé að ræða, enda eru menn í tómu tjóni með þá árekstra sem nú þegar eru orðnir við einkaaðila sem eru í rekstri og þar nefni ég fjarskiptafyrirtækin. Eins og hv. formaður nefndarinnar gat um er nefndin með breytingartillögu um það að þeim þáttum rekstrarins sem rekast á við almenn fyrirtæki á markaði skuli haldið aðgreindum í bókhaldi. Af hverju eru menn að fíflast enn eina ferðina með eitthvert svona samkrull sem gengur ekki upp? Af hverju látum við ekki einkaaðilana sjá um að reka það sem einkaaðilanna er í hlutafélögum sem eru um slík fyrirtæki og samkvæmt þeim reglum og lögmálum sem gilda um slíka aðila og höldum síðan neyðarsvöruninni innan opinbera geirans? Ég óska eftir því að fá svör við þessum spurningum í þessari umræðu frá meiri hluta nefndarinnar, frá hv. formanni og meiri hluta nefndarinnar.

Ég vil líka gera athugasemd, hæstv. forseti, við þær reglugerðarheimildir sem eru í frumvarpinu. Vil ég þá nefna 4. gr. sem fjallar um réttindi og skyldur viðbragðsaðila — af því að ég nefni orðið „viðbragðsaðili“ geri ég smáútúrdúr á ræðu minni, hæstv. forseti. Í reglugerð kemur fram að skilgreina þurfi sérstaklega eða mæla fyrir um hverjir teljist viðbragðsaðilar samkvæmt þessum lögum. Mig langar að spyrja hv. formann nefndarinnar hvort nú þegar liggi á borðum nefndarmanna einhvers konar upptalning eða listi yfir viðbragðsaðila. Ég sé ekki að það komi fram í þessum gögnum en mér þætti fengur að því við þessa umræðu ef slíkt væri lagt fram.

Um reglugerðarheimild hæstv. dómsmálaráðherra, í 4. gr., segir að ráðherranum sé heimilt að ákveða í reglugerð til hvaða aðila framangreind skylda tekur, þ.e. skyldan sem tengist vaktstöð samræmdrar neyðarsvörunar, og að kveða eigi nánar á um fyrirkomulag á upplýsingagjöf. Ég tel nauðsynlegt að hæstv. ráðherra sýni þingmönnum eða nefndinni á þau spil sem hann er með í hendi hvað þetta varðar. Mögulega er þessi reglugerðarheimild of víð. Vel má vera að rétt væri að skilgreina þessa aðila mun nánar í lagatextanum, þ.e. til hvaða aðila á þessi reglugerð að ná? Ég tel mjög nauðsynlegt að við fáum inn í umræðuna einhverjar hugmyndir um það hvað nefndin sér fyrir sér í þessum efnum.

Þá vil ég, hæstv. forseti, nefna athugasemdir Símans hf. við frumvarpið. Síminn sendi inn umsögn sem dagsett er 29. nóvember. Athugasemdir Símans hf. lúta fyrst og fremst að 8. gr. frumvarpsins sem varðar jöfnunarsjóðinn fyrir alþjónustu. Hv. formaður nefndarinnar gerði grein fyrir því í nefndaráliti, og gerð er grein fyrir því í nefndarálitinu líka, að meiri hluti nefndarinnar leggur til breytingu á þessu jöfnunarsjóðsgjaldi.

Nú er það svo að þessi alþjónusta svokallaða, sem skilgreind er í fjarskiptalögum nr. 81/2003, fjallar um þá þætti fjarskipta sem að tilteknum lágmarksgæðum eru boðnir öllum notendum á viðráðanlegu verði óháð landfræðilegri staðsetningu þeirra. Síminn bendir á og kannski fleiri umsagnaraðilar — ég tek það fram að þar sem ég starfa ekki í nefndinni hef ég ekki kynnt mér allar umsagnirnar, en ég tel að umsögn Símans sé afar greinargóð hvað þetta atriði varðar. Í henni er tekið fram að rekstur varðstöðvar fyrir samræmda neyðarsvörun teljist ekki til alþjónustu. Þess vegna ákveður nefndin að taka jöfnunarsjóðsgjaldið, sem er 25 millj. kr. á árinu 2007, undan þessum jöfnunarsjóði og bæta því á ríkissjóð. Í sjálfu sér er ekkert við það að athuga en það er hins vegar umhugsunarefni að inni í alþjónustunni skuli ekki vera neyðarsvörun sem nái til allra aðila. Ég velti því fyrir mér hver rökin séu fyrir því að neyðarþjónustan er ekki skilgreind inni í alþjónustunni. Það skyldi þó ekki vera að það væri vegna þess að neyðarþjónustan sé þess eðlis að hún eigi ekki heima inni í þeim rekstri sem fjarskiptafyrirtækin annast og sem alþjónustan leggur fjarskiptafyrirtækjunum á herðar að sinna. Alþjónustan snýst um atriði eins og tiltekið magn gagnaflutnings til allra sem búa í viðkomandi landi eða viðkomandi ríki, burt séð frá búsetu, hvar í sveit menn eru settir. Ég hefði haldið að hugleiða ætti þessar athugasemdir frá Símanum varðandi lágmarksþjónustuna sem heyrir undir alþjónustu, hugleiða hvort neyðarsvörunin ætti kannski heima undir þeirri skilgreiningu. Þar með erum við líka að styrkja þau rök sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum fyrir því að halda því fram að neyðarsvörunin eigi að vera í rekstri opinberra aðila, hvort sem það er ríkissjóðs eingöngu eða ríkis og sveitarfélaga í einhvers konar samstarfi.

Mig langar, hæstv. forseti, að nefna þessa hugmynd, það sem rætt er í nefndarálitinu þar sem fjallað er um að Neyðarlínan hafi upphaflega verið sett á fót með þátttöku einkaaðila mestmegnis í eigu opinberra aðila — ég held nokkurn veginn eingöngu, ég man ekki hvort það kom fram í umsögn Neyðarlínunnar sjálfrar að hún væri nú alfarið í eigu opinberra aðila og að hlutur ríkisins væri 73%. Þegar til var stofnað á sínum tíma var gert ráð fyrir því að þetta gæti farið í einhvers konar rekstur einkaaðila og einkaaðilar yrðu eitthvað ginkeyptir fyrir því að komast inn í þetta, en nú er ljóst að svo er ekki. Nú standa einungis opinberir aðilar að Neyðarlínunni og 73% eru í eigu ríkisins og það eru enn ein rökin fyrir því að skilja eigi á milli opinbers rekstrar og einkarekstrar og að Neyðarlínan eigi að vera í eigu hins opinbera, þess vegna ríkisins einvörðungu, og ekkert vera að grauta þeim rekstri inn í eitthvað sem varðar samkeppnisumhverfi eða samkeppnisrekstur.

Hæstv. forseti. Þetta er sjónarmið okkar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og koma kannski engum á óvart. Þau eru í samhljómi við það sem við höfum sagt áður í umræðum um Neyðarlínuna og umrædda neyðarsímsvörun. Ég tel því að ég hafi í þessari ræðu gert grein fyrir fyrirvara hv. þm. Atla Gíslasonar sem situr fyrir Vinstri græna í allsherjarnefnd.