135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

samræmd neyðarsvörun.

191. mál
[14:29]
Hlusta

Frsm. allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara út í grundvallarumræðu við hv. þingmann í þessu stutta andsvari, um þá spurningu hvaða starfsemi þurfi að vera á hendi hins opinbera og hver ekki og enn síður um þá spurningu, sem er auðvitað mjög uppi um þessar mundir, hvort hægt sé að láta eftir atvikum einkaaðila, hlutafélög eða opinber hlutafélög hafa með höndum starfsemi sem fjármögnuð er af hinu opinbera án þess að um ríkisstofnanir sé að ræða. Um þetta er auðvitað grundvallarágreiningur og ég er þeirrar skoðunar að sjálfsagt sé að leita leiða til þess að starfsemi sem einkaaðilar, hlutafélög, opinber hlutafélög eða aðrir geta sinnt, jafn vel eða betur en aðrir, sé á þeirra hendi jafnvel þó að þeir starfi undir skýrum lagafyrirmælum, skýrum reglugerðarfyrirmælum og séu kostaðir af hinu opinbera. Þess vegna náum við hv. þingmaður ekki saman um þetta, komumst ekki lengra í þeirri umræðu. Við erum einfaldlega ósammála um þetta. Ég tel að hlutafélagaformið hafi reynst vel og sé til þess fallið að skila ágætum árangri til frambúðar og sé ekki tilefni til að breyta því. Ég bendi líka á að ýmsir opinberir aðilar eiga þetta félag saman og ég veit ekki til þess að nein sérstök áform séu um að breyta því. Þegar margir aðilar eiga eitthvað saman er hlutafélagaformið margreynt og gott fyrirkomulag sem ekki er ástæða til að breyta.

Ég ætla að nefna enn eitt atriði í fyrri ræðu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur þar sem hún fjallar um reglugerðarheimild í 4. gr. Ég vildi koma því að að það ákvæði er óbreytt frá núgildandi lögum. Það var ekki tekið sérstaklega til skoðunar að breyta því. Það getur verið heppilegt að hafa upptalningu á viðbragðsaðilum í reglugerð en ekki í lagatexta. Breytingar kunna að verða í hópi viðbragðsaðila og ástæðulaust að fara þurfi í lagabreytingar til þess að bregðast við því.