135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[23:30]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Nú fer senn að ljúka umræðu um þetta mikilvæga þingmál sem getur skipt sköpum um framtíðarþróun heilbrigðisþjónustunnar í landinu. Framan af umræðunni í dag einkenndi það sérstaklega málflutning fulltrúa Sjálfstæðisflokksins að tengslin á milli okkar sumra værum vafasöm sem höfum tekið þátt í þessari umræðu annars vegar og verkalýðshreyfingarinnar hins vegar og þá sérstaklega voru nefnd samtökin BSRB.

Mér finnst í rauninni sjálfsagt að ræða þessi mál. Mér finnst sjálfsagt að ræða hagsmunatengsl en þá skulum við líka gera það að fullu. Við skulum tala um hagsmunatengsl og við skulum tala um fjármálatengsl. Ég spyr hvort ekki sé kominn tími til þess núna að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, m.a. við þessa umræðu, upplýsi um sín eigin tengsl og við fáum þau þá öll á borðið. Að við einskorðum þessa umræðu ekki við það eitt að vafasamt sé að verkalýðssamtök, og þá þau samtök sem hafa innan sinna vébanda fólkið sem starfar á heilbrigðissviðinu, láti þessi mál til sín taka. Við skulum líka horfa til tengsla út í þau fyrirtæki sem eiga hagsmuna að gæta.

Ég hef margoft áður tekið þátt í umræðu um markaðsvæðingu samfélagsþjónustunnar og stoðþjónustu í samfélaginu. Ég man sérstaklega vel eftir umræðunni um Rafmagnseftirlit ríkisins. Það var á fyrsta kjörtímabili Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hét þá Finnur Ingólfsson en undir hann heyrðu þessi mál. Hann sagði okkur að markaðsvæðing raforkueftirlitsins mundi leiða til þess að til yrði blómstrandi eftirlitsiðnaður sem mundi styrkjast víðs vegar um landið. Við önnur sem tókum þátt vorum gagnrýnin á þessi sjónarmið, töldum að hér yrði um fákeppni að ræða sem fyrst og fremst mundi leita á höfuðborgarsvæðið.

Hver varð raunin? Að uppistöðu til er það eitt fyrirtæki sem sinnir þessu eftirliti. Það heitir Frumherji. Hver skyldi vera stærsti eigandinn í því fyrirtæki? Hann heitir Finnur Ingólfsson. Er að undra að menn tali um einkavinavæðingu og menn vilji fá hagsmuna- og fjármálatengslin upp á borðið?

Hafa menn hugleitt hvað muni gerast í reynd ef við förum með heilbrigðisþjónustuna á útboðsmarkað? Einhver þingmaður Samfylkingarinnar talaði um að það gæti eflt litlu sjúkrahúsin úti á landi. Halda menn það virkilega? Eru menn svo barnalegir að ímynda sér að þetta gerist?

Ef þorri bæklunarlækna tekur sig saman, t.d. á sjúkrahúsi í Garðabænum, og býður í tilteknar bæklunaraðgerðir, hvað mun þá gerast inni á Landspítalanum, hver verður hagur þeirrar stofnunar? Verður hann best tryggður með þessu móti? Hver er afstaða læknadeildarinnar í Háskóla Íslands, hver væri hún til slíkrar þróunar? Ég bara spyr. Þegar farið verður að bjóða í aðgerðir og stóru einkavæddu blokkirnar hér á suðvesturhorninu fá bitana, ekki sjúkrahúsið eða heilsugæslan á Hólmavík eða Blönduósi. Það verða þessi fyrirtæki sem hagnast á nákvæmlega sama hátt og gerðist með Frumherja á sínum tíma.

Væri nú ekki rétt að taka klútinn frá augunum og greiða alla vega ekki atkvæði á morgun með bundið fyrir augun? Því miður óttast ég að það gerist.